Alls ekki ósáttur

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, til hægri.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, til hægri. mbl.is/Unnur Karen

„Við vorum hugrakkar í kvöld, þorðum að keyra á þær og ég er mjög sáttur með það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir 0:2-tap liðsins gegn Hollandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið sýndi ágætis takta á köflum en Evrópumeistararnir voru einfaldlega of stór biti fyrir Ísland í leiknum.

„Við vissum að við yrðum minna með boltann í leiknum en við reyndum samt sem áður að halda í hann þegr við gátum. Við féllum kannski full langt til baka á köflum og það voru ákveðnir tímapunktar þar sem mér fannst við geta haldið línunni aðeins ofar á vellinum en það tókst ekki.

Sóknarlega þá vantaði herslumuninn upp á og gæði í lokasendingunum. Það vantaði aðeins upp á hvert leikmenn ætluðu að spila boltanum. Okkur gekk ekki nægilega vel að finna hlaupin og besta möguleikann í stöðunni.

Það var svona einstaka fínpússeringar sem leikmenn hefðu getað gert aðeins betur en heilt yfir þá er ég sáttur við það sem við gerðum,“ sagði Þorsteinn.

Þetta var fyrsti leikur Íslands í undankeppninni og jafnframt fyrsti keppnisleikur liðsins undir stjórn Þorsteins.

Ég er alls ekki ósáttur en auðvitað vill maður alltaf vinna og allt það.  Ég er sáttur við margt sem við vorum að gera og margt sem við vorum að reyna gera.

Við hefðum hæglega getað skorað mark og fengum góða sénsa til að búa til dauðafæri í leiknum. Það er hins vegar stutt á milli í þessu og það gekk ekki upp í kvöld,“ bætti Þorsteinn við.

Glódís Perla Viggósdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni í …
Glódís Perla Viggósdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert