Átján reynslulitlir í landsliðinu

Hjörtur Hermannsson og Guðlaugur Victor Pálsson eru nú á meðal …
Hjörtur Hermannsson og Guðlaugur Victor Pálsson eru nú á meðal reyndari landsliðsmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að tveir af elstu leikmönnunum í íslenska A-landsliðshópnum heltust úr lestinni í gær vegna meiðsla, þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Jón Guðni Fjóluson, er ljóst að Ísland hefur sjaldan eða aldrei teflt fram jafn reynslulitlum hópi í undankeppni stórmóts og gegn Armeníu og Liechtenstein á föstudag og mánudag.

Í þeim 25 manna hópi sem nú stendur eftir hefur Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari til umráða átján leikmenn sem hafa spilað 12 eða færri landsleiki. Níu þeirra eru með fimm eða færri leiki að baki.

Mikael Egill Ellertsson, 19 ára framherji frá SPAL á Ítalíu, sem bættist við í gær, hefur aldrei spilað A-landsleik og Daníel Leó Grétarsson, 26 ára varnarmaður frá Blackpool á Englandi, hefur leikið einn vináttulandsleik.

Þeir sjö sem eftir standa af þeim reyndari eru Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson sem hafa leikið 101 landsleik hvor, Ari Freyr Skúlason með 81 landsleik, Viðar Örn Kjartansson með 30, Guðlaugur Victor Pálsson með 28, Albert Guðmundsson með 25 og Hjörtur Hermannsson með 23 landsleiki. Næstir á eftir þeim koma síðan Jón Dagur Þorsteinsson og markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson með 12 leiki hvor.

Sjö leikmenn í hópnum eru enn þá gjaldgengir með 21-árs landsliðinu sem spilar einmitt næsta leik sinn í undankeppni Evrópumótsins gegn Portúgal á þriðjudaginn kemur, 12. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert