Taka þarf mið af ógnarsterkum andstæðingi

Ásta Eir Árnadóttir og Amy Lawrence í leik liðanna fyrir …
Ásta Eir Árnadóttir og Amy Lawrence í leik liðanna fyrir tveimur árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningur bikarmeistara Breiðabliks fyrir Evrópuleikinn gegn stórliðinu París Saint Germain á Kópavogsvellinum annað kvöld er ekki langur. 

Breiðablik varð bikarmeistari á föstudagskvöldið og Blikar höfðu því nóg að gera í síðustu viku. 

„Undirbúningurinn byrjaði formlega í gær. Þá tókum við létta æfingu. Eðlilega er smá þreyta í hópnum en við verðum tilbúin í slaginn,“ sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari Breiðabliks á blaðamannafundi í Smáranum í dag. Fyrirliðinn Ásta Eir Árnadóttir tók undir þetta.

„Já þetta er stuttur undirbúningur en góður. Við erum mjög spenntar og þreytan gleymist á morgun,“ sagði Ásta. 

Mikil umræða hefur verið um þunnskipaðan hóp hjá Blikum en margir leikmenn Breiðabliks voru lánaðir til Augnabliks í sumar. 

„Hjá okkur eru allar heilar. Við fengum undanþágu fyrir Karen [Maríu Sigurgeirsdóttur] sem var á leiðinni til okkar hvort sem er [frá Þór/KA]. Við höfum einnig fengið undanþágu fyrir þrjá unga leikmenn sem ekki voru á leikmannasamningi. Þar af leiðandi flokkast þær undir áhugamenn. Það lítur einfaldlega betur út að vera með stóran hóp,“ sagði Vilhjálmur sem er að ljúka störfum sem þjálfari Breiðabliks eins og fram hefur komið. Leikurinn gegn París annað kvöld verður raunar hans síðasti með liðið. Hann stjórnaði liðinu eitt tímabil og tók við þegar sú staða kom upp að Þorsteinn Halldórsson tók við íslenska landsliðinu. 

Auðvitað er þetta skrítið. Við undirbjuggum þetta vel í samráði við Breiðablik. Ég er í öðru starfi og það er erfitt að sinna hvoru tveggja,“ sagði Vilhjálmur. 

Fyrsti leikurinn hjá nýjum þjálfara verður á móti Real Madríd sem er stórt skref. Við erum þakklátar Villa fyrir gott starf. Hann steig inn í þetta hjá okkur frekar seint og það hefur verið góð samvinna á milli allra. Við fáum nýjan og spennandi þjálfara [Ásmundur Arnarsson] sem ég hef heyrt vel talað um,“ sagði Ásta Eir.  

Fékk skilaboð frá Karólínu

Dóttir Vilhjálms, Karólína Lea, var í liði Breiðabliks sem mætti Parísarliðinu árið 2019 en er nú hjá stórliðinu Bayern München. Vilhjálmur segist hafa fengið skilaboð í morgun. 

„Þegar ég vaknaði í morgun sá ég skilaboð sem ég hafði fengið frá dóttur minni þar sem ég fékk góð ráð um hvernig eigi að leggja París að velli,“ sagði Vihjálmur og hló en bætti við: „Þetta er fimmta sterkasta liðið samkvæmt styrkleikaröðun hjá UEFA. Þetta er því gríðarlega sterkt lið. París var að elta Lyon í mörg ár og náði Lyon í fyrra og varð meistari.“

Spurð um lið Parísar segir Ásta að um leið og Blikar þurfi að fara varlega að þá sé einnig mikilvægt að njóta þess að spila. „Breytingar hafa orðið á báðum liðum frá því fyrir tveimur árum. Þær eru ógnarsterkar og eru virkilega gott lið. Þær eru með toppleikmenn í hverri stöðu. Við þurfum að halda markinu hreinu til að ná góðum úrslitum og finna réttu augnablikin. Þær geta alveg verið brothættar í uppspilinu og í vörninni. Við erum með leikmenn frammi sem sem geta refsað. Við getum hins vegar ekki gert klaufaleg mistök gegn andstæðingi sem þessum. Þetta er mjög erfitt verkefni en þetta er líka bara fótboltaleikur. Við þurfum að blanda saman hugsunarhætti um að taka þetta alvarlega og njóta leiksins,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir. 

Blikar fagna bikarmeistaratitlinum.
Blikar fagna bikarmeistaratitlinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

„Þær spila 4-3-3 og eru með einn djúpan miðjumann. Ekki ósvipað okkar leikkerfi í sjálfu sér. Við verðum aðeins varkárari en við höfum verið í leikjum hér heima. Við munum falla aðeins til baka en við þurfum að mæta þeim. Við getum ekki bara lagst á teiginn og vonað það besta. Þegar við höfum spilað hvað best þá höfum við pressað vel. Við megum ekki gleyma því en þurfum að taka mið af ógnarsterkum andstæðingi,“ sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert