Ekki okkar að meta alvarleika brotanna

Ómar Smárason, Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á …
Ómar Smárason, Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef við fáum ábendingar um einhver meint ofbeldis- eða kynferðisbrot þá er það strax sett í ferli og því vísað til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs,“ sagði Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Mál sex leikmanna íslenska karlalandsliðsins eru nú til skoðunar hjá samskiptaráðgjafanum, Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, en þau tengjast öll meintum ofbeldis- og kynferðisbrotum landsliðsmannanna.

Málin komu fyrst inn á borð hjá KSÍ eftir að aðgerðahópurinn Öfgar sendi stjórn Knattspyrnusambandsins tölvupóst sem innihélt meðal annars nöfn leikmannanna og dagsetningar yfir meint brot þeirra.

„Við erum ekki að elta einhverjar twitterfærslur þegar kemur að þessum málefnum en ef okkur berst ábending, símleiðis eða í tölvupósti, þá sendum við það beint áfram á samskiptaráðgjafann,“ sagði Ómar.

„KSÍ reynir að blanda sér sem minnst í málið og það er ekki okkar hlutverk að meta alvarleika brotanna. Til að halda algjöru hlutleysi er mikilvægt að senda málið strax áfram á framkvæmdastjóra sambandsins sem tekur við því og sendir það svo beint áfram,“ bætti Ómar við.

Getur þá hver sem er sent eða hringt inn með ábendingu og það fer strax í ferli?

„Já eins og staðan er í dag þá virkar þetta þannig,“ sagði Ómar Smárason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert