Þetta er það sem er stórkostlegt við kvennaknattspyrnuna

Sif Atladóttir.
Sif Atladóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sif Atladóttir, einn reynslumesti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst spennt fyrir því að mæta Tékklandi, liði sem hefur bætt sig gríðarlega á undanförnum árum, í undankeppni HM 2023 á föstudaginn.

„Leikurinn leggst bara vel í mig. Við höfum nú mætt Tékkunum í gegnum árin en það sem er stórkostlegt við kvennaknattspyrnuna núna er að það eru einhvern veginn öll lönd, allar þjóðir að bæta sig alveg einstaklega hratt og Tékkarnir eru þar á meðal.

Þegar maður horfði á leikinn þeirra við Holland þá hafa þær bætt sinn leik alveg gríðarlega síðan við spiluðum við þær síðast 2017 og 2018.

Ég held að þetta verði hörkuleikur á föstudaginn. Við þurfum að vera búnar að fínpússa okkar hluti, það sem við þurfum að gera til þess að loka og sækja hratt á þær,“ sagði Sif á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Tékkar náðu 1:1 jafntefli gegn Evrópumeisturum Hollands í síðasta mánuði. Fyrirfram er búist við því að Holland vinni C-riðilinn en að Ísland og Tékkland muni berjast um annað sætið, sem er umspilssæti. Sif var því spurð hvort leikurinn á föstudagskvöld sé lagður upp sem úrslitaleikur í riðlinum.

„Hver leikur er bara hálfgerður bikarúrslitaleikur. Við verðum að horfa á það þannig því vitum að liðin eru bara orðin það sterk. Hver leikur er mjög mikilvægur.

Við þurfum að vinna næsta leik til þess að byrja að safna stigum. Við horfum á þennan leik og tökum svo stöðuna. En við stefnum á sigur, það er ekkert annað í boði,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert