Ekki einhver vitleysingur

Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni á Laugardalsvelli í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Ég er mjög glaður og sáttur með þessi úrslit,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ eftir 4:0-stórsigur Íslands gegn Tékklandi í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég gæti í raun ekki verið ánægðari í hreinskilni sagt og þessi leikur spilaðist í raun alveg eins og ég bjóst við. Við vorum mjög þolinmóðar og okkur leið mjög vel með boltann.

Við vissum að þær myndu þrýsta okkur vel niður á köflum en við gerðum virkilega vel í að standa það af okkur og gáfum þeim aldrei nein færi á okkur þannig,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn gerðir tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá 0:2-tapinu gegn Hollandi en Guðrún Arnardóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttur komu báðar inn í liðið og stóðu sig frábærlega.

„Það er einhver ástæða fyrir því að maður er í þessu starfi. Ég tel mig hafa eitthvað fram að færa og maður er ekki einhver vitleysingur.

Ég taldi þessar breytingar vera rétt skref fyrir þennan leik. Við þurftum fjölbreytni inn á miðsvæðið og Karólína stóð sig mjög vel.

Það sama á við um Guðrúnu sem er mjög góður varnarmaður og með blússandi sjálfstraust þessa dagana,“ bætti Þorsteinn við.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert