Kvíðalyf og svefntöflur fyrir mikilvægasta leik ferilsins

„Ég vaknaði á mánudeginum og var bókstaflega að deyja úr stressi,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Halldór Smári, sem er 33 ára gamall, er uppalinn í Víkinni og hefur leikið með liðinu allan sinn feril en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 381 leik á bakinu.

Víkingur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár hinn 25. september þegar liðið vann 2:0-sigur gegn Leikni úr Reykjavík í Fossvoginum en vikan í aðdraganda leiksins var erfið fyrir Halldór Smára.

„Ég hef alltaf átt í mjög skrítnu sambandi við hræðslutilfinninguna sem fylgir því að gera mistök,“ sagði Halldór Smári.

„Ég hélt þessu inn í mér fyrstu dagana og talaði ekki við neinn. Á miðvikudeginum fann ég bara að ég var að springa og það var mjög gott að geta talað um þetta við kærustuna mína sem vinnur sem hjúkrunarfræðingar á Kleppi og hefur mikla reynslu í svona aðstæðum.

Ég tók bæði kvíðalyf og svefntöflur til þess að geta sofið og vikan í aðdraganda Leiknisleiksins var í einu orði sagt hræðileg þó það sé hægt að hlæja að þessu svona eftir á,“ sagði Halldór Smári meðal annars.

Viðtalið við Halldór Smára í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert