Davíð og Ólafur aðstoða Arnar Þór

Arnar Þór Viðarsson er í leit að nýjum aðstoðarþjálfara eftir …
Arnar Þór Viðarsson er í leit að nýjum aðstoðarþjálfara eftir að Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, vinnur nú hörðum höndum að því að finna nýjan aðstoðarþjálfara eftir að Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum í lok nóvember.

Arnar Þór og Eiður Smári tóku við liðinu í desember 2020 en stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað að framlengja ekki samning Eiðs Smára á meðan Arnar Þór fékk áframhaldandi ráðningu.

„Vonandi náum við að klára ráðningu aðstoðarþjálfara sem fyrst, en það er líka mikilvægt að flýta sér hægt og vanda til verks,“ sagði Arnar Þór í tilkynningu sem birtist á heimasíðu KSÍ.

„Í janúarverkefninu verða þeir Davíð Snorri [Jónasson, þjálfari U21 karla] og Ólafur Ingi [Skúlason, þjálfari U19 karla] mér til aðstoðar, ásamt auðvitað Halldóri [Björnssyni] markmannsþjálfara,“ sagði enn fremur í tilkynningunni.

Ísland mætir Úganda og Suður-Kóreu í vináttulandsleik, 12. og 15. janúar, en leikirnir fara fram í Antalya í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert