Kári sótti um starf Arnars Þórs hjá KSÍ

Kári Árnason lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.
Kári Árnason lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason sótti um stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, snemma á síðasta ári en Arnar Þór Viðarsson gegnir stöðunni í dag, ásamt því að vera þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Þetta kom fram í viðtali hans við Viðskiptablaðið.

Kári, sem er 39 ára gamall, lagði knattspyrnuskóna á hilluna eftir síðasta tímabil þar sem lið hans Víkingur úr Reykjavík varð Íslands- og bikarmeistari en hann starfar í dag sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum.

„Ég átti afar góðar samræður við Guðna Bergsson, sem þá var formaður KSÍ, og Arnar [Þór Viðarsson]. Mér fannst eðlilegt að nýr maður myndi stíga inn í starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ eftir að Arnar tók við sem aðalþjálfari, enda er það fullt starf og rúmlega það,“ sagði Kári í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ástæðan fyrir því að ég sótti um starfið er sú að fyrir mér þá verður einhver sem hefur verið í kringum landsliðið, sem hefur náð frábærum árangri á undanförnum árum, að gegna þessari stöðu. Það þarf ekkert endilega að vera ég, það getur allt eins verið einhver annar af mínum fyrrverandi liðsfélögum,“ sagði Kári.

Kári segir mikilvægt að sú velgengni sem náðst hefur hjá karlalandsliðinu, undanfarin ár, hverfi ekki úr sambandinu.

„Auk þess verður að gæta þess að þessi vitneskja sem varð til í þessari sögulegu velgengni hverfi ekki út úr sambandinu,“ sagði Kári.

„Annars er landsliðið alltaf í einhverjum uppbyggingarfasa. Sem dæmi hefur oft verið talað um að yngja þurfi upp landsliðshópinn, sem er skiljanleg umræða. Það má þó ekki gleyma því að í A-landsliðinu snúast hlutirnir fyrst og fremst um að ná árangri.

Ef það er með reglubundnum hætti verið að fá inn nýja þjálfara sem ekki tengdust landsliðinu meðan vel gekk og því ekki öðlast þekkingu á hvað þurfi til að vinna landsleiki, er hætta á því að sú kunnátta hverfi út úr sambandinu. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af og þess vegna sótti ég um starfið,“ bætti Kári við í samtali við Viðskiptablaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert