Dramatískur sigur Stjörnunnar á Val

Haukur Páll Sigurðsson úr Val og Stjörnumaðurinn Jóhann Árni Gunnarsson …
Haukur Páll Sigurðsson úr Val og Stjörnumaðurinn Jóhann Árni Gunnarsson eigast við í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Stjarnan vann Val 1:0 í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld en sigurmarkið kom á 93. mínútu leiksins. Það var Oliver Haurits sem skoraði markið eftir frábæra sendingu frá Óskari Erni Haukssyni. Þetta þýðir að Stjarnan er komin með 11 stig eftir sex umferðir en Valur er áfram með 13 stig.

Valsmenn byrjuðu betur í Garðabænum í kvöld og voru Tryggvi Hrafn Haraldsson og Guðmundur Andri Tryggvason sérstaklega sprækir í upphafi leiksins. Tryggvi Hrafn tók aukaspyrnu fyrir Valsmenn rétt fyrir utan teig heimamanna á 7. mínútu leiksins en Haraldur Björnsson varði skot hans. Þegar það leið á hálfleikinn fóru heimamenn að sækja í sig veðrið og á 21. mínútu átti Jóhann Árni Gunnarsson sendingu á Ólaf Karl Finsen sem tók skot rétt við vítateigslínuna en skotið fór rétt framhjá.

Besta færi Stjörnumanna í fyrri hálfleik fékk Adolf Daði Birgisson en á 29. mínútu fékk Adolf góða sendingu frá Eggerti Aroni en skot Adolfs fór rétt framhjá. Besta færi Valsmanna í fyrri hálfleik kom á 33. mínútu en þá fékk Tryggvi Hrafn góða sendingu inn fyrir vörn Stjörnumanna en Haraldur Björnsson kom vel út á móti honum og varði vel. Það var nokkuð um pústra í fyrri hálfleik en alls fengu fjórir leikmenn gula spjaldið hjá Sigurði í hálfleiknum.

Það munaði ansi litlu að Birkir Heimsson kæmi Valsmönnum strax í upphafi seinni hálfleiks en þá fékk Birkir góða sendingu frá Guðmundi Andra en skot hans fór í stöngina. Orri Hrafn Kjartansson fékk svo frábært færi á 57. mínútu til að skora fyrsta mark leiksins en Haraldur Björnsson kom í veg fyrir það með góðri markvörslu. Eftir þetta skiptust liðin á því að sækja en Valsmenn voru heldur hættulegri. En það voru heimamenn sem kláruðu þetta í blálokin en þá átti Óskar Örn Hauksson góða sendingu á Oliver Haurits og Oliver setti boltann í netið.

Í næstu umferð fer Stjarnan til Dalvíkur og leikur við KA en sá leikur er á dagskrá á laugardaginn klukkan 16:00. Valur á aftur á móti heimaleik á Hlíðarenda við Víking á sunnudagskvöldið klukkan 19:15.

Stjarnan 1:0 Valur opna loka
90. mín. Það eru fjórar mínútur í uppbótartíma hér í Garðabæ í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert