Tíu Framarar áfram eftir framlengingu

Hart barist í leiknum í dag.
Hart barist í leiknum í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Framarar eru komnir áfram í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 3:2-sigur gegn Leikni úr Reykjavík í framlengdum leik í 32-liða úrslitunum í Safamýrinni í dag.

Heimamenn uppskáru mark strax á 12. mínútu þegar föst sending Alex Freys Elíssonar inn í teig barst á Magnús Þórðarson sem skoraði af stuttu færi. Verðlaun fyrir öfluga byrjun en á fjórðu mínútu hafði Tryggvi Snær Geirsson þrumað boltanum í stöngina.

Eftir þetta var nokkurt jafnræði með liðunum út hálfleikinn en aftur byrjuðu Framarar af krafti eftir hlé og var staðan orðin 2:0 á 53. mínútu. Óskar Jónsson sneri þá boltann inn í teig, á fjærstöngina, þar sem Alexander Már Þorláksson skoraði. En leikurinn átti heldur betur eftir að snúast.

Gestirnir minnkuðu muninn á 68. mínútu með aukaspyrnumarki frá Mikkel Jakobsen. Daninn setti boltann fastan í nærhornið úr spyrnu vinstra megin við vítateiginn. Á 74. mínútu kom Alex Freyr í veg fyrir mark með því að handleika knöttinn á marklínu. Fyrir það fékk hann rautt spjald og Leiknismenn fengu vítaspyrnu sem Emil Berger afgreiddi af öryggi, setti boltann upp í hægra hornið. Staðan var því orðin 2:2 og Framarar manni færri.

Bæði lið fengu svo fær til að kreista fram sigur á endasprettinum, Kristófer Konráðsson skaut framhjá í ágætis stöðu í tvígang og Alexander Már  var nálægt því að skora sitt annað mark en setti boltann í stöngina á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Að lokum var staðan enn 2:2 og þurfti því að grípa til framlengingar.

Það voru svo tíu Framarar sem endurheimtu forystuna þar, danski framherjinn Jannik Pohl skallaði boltann í netið á 103. mínútu eftir fyrirgjöf frá Tiago Fernandes. Heimamenn vörðust svo vel það sem eftir lifði af framlengingunni og sigldu í höfn 3:2 sigri.

Fram 3:2 Leiknir R. opna loka
120. mín. Tiago Fernandes (Fram) fær hornspyrnu Portúgalinn er hér einn gegn einhverjum sex, sjö Leiknismönnum en heldur honum lengi og vinnur að lokum hornspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert