Fjögur mörk í Þjóðhátíðarleiknum

Markaskorarinn Arnar Breki Gunnarsson sækir að marki Keflavíkur í dag.
Markaskorarinn Arnar Breki Gunnarsson sækir að marki Keflavíkur í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Keflavík í Bestu deild karla á Hásteinsvelli í dag. Leikurinn endaði með 2:2 jafntefli. Mikill fjöldi fylgdist með leiknum en Þjóðhátíð er í fullum gangi í Vestmannaeyjum.

Eyjamenn hafa verið á skriði og höfðu unnið tvo leiki í röð fyrir umferðina. Keflavík hafði hinsvegar tapað fyrir KA í síðustu umferð.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur. Eyjamenn byrjuðu af krafti og komust yfir á 9. mínútu. Þá komst Guðjón Ernir inn fyrir vörn Keflavíkur en Rúnar, markvörður Keflvíkinga, sá við honum. Boltinn barst hinsvegar út til Arnars Breka sem skoraði með bylmings skoti.

Um miðjan fyrri hálfleik fóru Keflvíkingar að sýna sínu góðu hliðar. Þeir uppskáru jöfnunarmark á 43. mínútu þegar Nacho Heras skallaði boltann yfir Guðjón Orra eftir frábæra aukaspyrnu frá Rúnari Þóri. Staðan var því jöfn, 1:1, þegar Þorvaldur flautaði til leikhlés.

Líkt og í fyrri hálfleik byrjuðu Eyjamenn seinni hálfleikinn af krafti og voru betri aðilinn. Á 65. mínútu fengu Eyjamenn aukaspyrnu á hættulegum stað eftir að brotið var á Arnari Breka. Andri Rúnar, nýkominn inn á sem varamaður, tók spyrnuna og setti knöttinn beint í markið framhjá Rúnari. Staðan orðin 2:1 fyrir heimamönnum.

Þegar tæpar 5 mínútur lifðu leiks áttu Keflvíkingar hornspyrnu. Spyrnan lenti ansi nálægt Guðjóni Orra. Erfitt er að greina hvað gerðist nákvæmlega þegar boltinn lenti, en allt bendir til þess Nacho hafi náð að snerta boltann og koma honum í netið. Hans annað mark í leiknum og Keflavík búið að jafna leikinn í annað sinn.

Fleira gerðist ekki og 2:2 jafntefli niðurstaðan. Eftir leikinn eru Eyjamenn með 12 stig og fara upp fyrir FH í 9. sæti . Keflvíkingar fara í 18 stig og fara upp fyrir KR í 6. sæti.

ÍBV 2:2 Keflavík opna loka
90. mín. Sindri Snær Magnússon (Keflavík) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert