Jafnt í baráttuleik

Einar Karl Ingvarsson úr Stjörnunni og Júlíus Magnússon hjá Víkingi …
Einar Karl Ingvarsson úr Stjörnunni og Júlíus Magnússon hjá Víkingi í skallaeinvígi í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan og Víkingur úr Reykjavík skildu jöfn, 2:2 í Bestu deild karla í dag. Öll mörkin komu í síðari hálfleik, en Víkingar komust tvisvar yfir í leiknum, en Stjörnumenn jöfnuðu flljótlega í bæði skiptin. 

Leikurinn var mikill baráttuleikur, þar sem bæði lið reyndu að spila boltanum hratt og skiptust á að sækja. Eftir því sem leið á fyrri hálfleik tóku Víkingar hins vegar sífellt meiri völd á leiknum, og þyngdust sóknir þeirra jafnt og þétt.

Langbesta færi fyrri hálfleiks kom á 35. mínútu, en þá átti varnarmaðurinn Kyle McLagan glæsilegan skalla að marki eftir hornspyrnu, sem Haraldur varði glæsilega með fætinum. Þar barst boltinn út í teiginn aftur og endaði Haraldur á að brjóta á Helga Guðjónssyni. Vilhjálmur Alvar benti á punktinn, en breytti dómi sínum í rangstöðu þar sem aðstoðardómarinn gaf til kynna að Helgi hefði verið rangstæður. 

Einungis voru um fjórar mínútur liðnar af fyrri hálfleiknum þegar Víkingar náðu loksins að brjóta niður múrinn, en þá skoraði Nikolaj Hansen með föstum skalla eftir hornspyrnu. Haraldur markvörður hafði hendur á boltanum, en hann náði ekki að halda honum og endaði boltinn í markinu eftir mikinn darraðardans á markteignum. 

Á 54. mínútu fengu Víkingar svo afbragðstækifæri til þess að bæta við öðru marki, en þá braut Haraldur aftur á Helga líkt og í fyrri hálfleik. Að þessu sinni var Helgi ekki rangstæður og því ekki um annað að ræða en að dæma vítaspyrnu. Hana tók Erlingur Agnarsson, en hann endaði á því að sparka boltanum himinhátt yfir markið. 

Stjörnumenn biðu ekki boðanna, og náðu þeir að jafna á 66. mínútu. Óskar Örn Hauksson, sem kom inn á sem varamaður á 60. mínútu átti þá laglega stungusendingu inn á Ísak Andra Sigurgeirsson, kantmann Stjörnunnar, sem gaf boltann um leið inn á markteig, en þar varð Oliver Ekroth, varnarmaður Víkings fyrir því óláni að slæma fæti í boltann, sem endaði í markinu. 

Víkingar héldu hins vegar áfram að sækja, og náðu þeir aftur forystunni um fimm mínútum síðar eftir aðra hornspyrnu. Viktor Örlygur Andrason gaf þá laglega langa sendingu inn á teiginn, sem allir misstu af, en boltinn fór þess í staðinn beint á Birni Snæ Ingason, sem ákvað að þruma honum í markhornið fjær á einkar laglegan hátt. 

Gestirnir voru þar með komnir í ágæta stöðu, og benti fátt til annars en að þeir myndu sigla sigrinum í örugga höfn. Stjörnumenn voru þó engan veginn af baki dottnir, og uppskáru þeir á 85. mínútu, þegar Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, felldi Emil Atlason klaufalega í teignum, en boltinn var þá ekki mjög nálægt Emil og lítil ástæða til að sækja að honum. Emil tók spyrnuna sjálfur og jafnaði með glæsilegu skoti á mitt markið.

Það sem eftir lifði leiks reyndu bæði lið að tryggja sér sigurinn, en næst því komst Emil Atlason í uppbótartímanum með föstu skoti sem Ingvar varði mjög vel. 

Liðin urðu því að sættast á jöfn skipti eftir mikinn baráttuleik. Víkingar munu eflaust líta svo á að þeir hefðu átt að fara heim með öll stigin miðað við þau færi sem þeir fengu, en á sama tíma ber að hrósa Stjörnumönnum að hafa ekki látið árar í bát þegar Víkingar náðu forystunni. 

Stjarnan er eftir leikinn áfram í fjórða sæti, nú með 24 stig, og Víkingur er enn í öðru sæti með 29 stig, sex stigum á eftir Blikum, sem einnig gerðu jafntefli í umferðinni. 

Stjarnan 2:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Emil Atlason (Stjarnan) á skot sem er varið +1! Stjörnumenn með fína sókn og nú fær Emil Atlason gott skotfæri sem Ingvar gerir vel í að verja!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert