Fyrsti leikurinn í 8-liða úrslitum í bikarkeppni karla í knattspyrnu er spilaður í dag. KA mætir Ægi úr Þorlákshöfn á Akureyri.
KA er í 3. sæti í Bestu deild karla með 30 stig, jafnir Víkingi í 2. sæti á stigum. Ægir hinsvegar er í 3. sæti í 2. deild.
Ægir komst í 8-liða úrslit eftir sigur á 1. deildarliði Fylkis í 16-liða úrslitum. KA mætti úrvalsdeildarliði Fram í 16-liða úrslitum og vann þann leik 4:1.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, mun vera á hliðarlínunni þar sem um bikarleik er að ræða en hann missti af síðasta leik liðsins vegna þess að hann er í fimm leikja banni á Íslandsmótinu eftir leik KA og KR.
Þar hefur hann þegar misst af einum leik en það var leikur liðsins gegn FH þar sem Hallgrímur Jónasson stýrði liðinu.
KA er í 8-liða úrslitum í 13. skipti en liðið komst þangað síðast árið 2015. Ægir hefur hinsvegar aldrei komist á þetta stig í keppninni.
Leikurinn fer fram á KA-vellinum á Akureyri í dag klukkan 18.00.