Fimmtíu ár í dag frá upphafi Íslandsmóts kvenna

Íslandsmeistarar FH 1972 ásamt Alberti Guðmundssyni formanni KSÍ, lengst til …
Íslandsmeistarar FH 1972 ásamt Alberti Guðmundssyni formanni KSÍ, lengst til hægri. Ljósmynd/Helgi Dan.

Dagurinn í dag, 26. ágúst, er sögulegur í íslenskri knattspyrnu því á þessum degi fyrir hálfri öld hófst fyrsta Íslandsmót kvenna.

Flautað var til leiks klukkan 14.00 á Vallargerðisvelli í Kópavogi þar sem Breiðablik tók á móti fram í A-riðli mótsins en átta lið tóku þátt og var skipt í tvo riðla. Fram vann þennan fyrsta leik 3:2.

FH vann A-riðilinn og sigraði síðan Ármann, sigurvegara B-riðils, í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Vallargerðisvelli 24. september, 2:0.

Hin fjögur liðin sem tóku þátt í mótinu voru Þróttur úr Reykjavík, Grindavík, Haukar og Keflavík.

Í tilefni af þessum tímamótum verður Íslandsmeistaralið FH frá árinu 1972 heiðrað á leik Íslands og Hvíta-Rússlands í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvellinum næsta föstudag, 2. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert