„Skulduðum frammistöðu eftir síðasta leik“

ÍBV vann sterkan 3:1 sigur í dag.
ÍBV vann sterkan 3:1 sigur í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í dag.

Eyjamenn voru án fyrirliða síns, Eiðs Arons, en létu það ekki á sig fá og endaði leikurinn með líklegast sanngjörnum sigri heimamanna 3:1, en Stjörnumenn spiluðu manni færri í um það bil fjörtíu mínútur.

Sigurður Arnar Magnússon stóð sína vakt í vörn Eyjamanna með prýði í fjarveru fyrirliðans og var að vonum hæst ánægður með úrslitin og spilamennsku Eyjamanna í dag.

Skulduðum frammistöðu

„Gríðarlega öflugur sigur. Okkur fannst við skulda frammistöðu eftir síðasta leik þar sem við vorum ekki góðir. Mér fannst við ekki byrja þennan leik alveg nógu sterkt en karakter að koma tilbaka og á þrítugustu mínútu sirka finnst mér við taka yfir leikinn. Svo gerir þetta okkur auðveldara fyrir þegar þeir missa mann út,“ sagði Sigurður Arnar í samtali við mbl.is eftir leikinn í dag.

Stjörnumenn fengu að líta rautt spjald í stöðunni 2:1 á 53. mínútu. Við tók þroskuð spilamennska hjá Eyjamönnum sem bæði skoruðu sitt þriðja mark og hleyptu Stjörnumönnum aldrei inn í leikinn aftur.

Getum alltaf sótt stig

„Mér fannst við fara að blanda þessu meira. Við bæðum héldum í boltann og þegar það var möguleiki þá beittum við skyndisóknum. Mér fannst það fagmannlegt hvernig við kláruðum leikinn. Bæði að halda vel í boltann og ógna þannig að þeir gátu ekki komið hátt á okkur þegar við vorum að halda í hann, því þá fórum við aftur fyrir þá,“ sagði Sigurður Arnar aðspurður um upplegg Eyjamanna eftir rauða spjaldið.

ÍBV tapaði fyrir botnliði ÍA í síðustu umferð auk þess sem önnur lið í kringum ÍBV í töflunni sóttu sigra. Fyrir vikið sogaðist ÍBV aftur niður í fallbaráttuna eftir að hafa náð að skilja sig frá henni. Sigurður Arnar vildi meina að það hefði ekki legið á huga Eyjamanna fyrir leikinn í dag.

„Nei, önnur úrslit og svona þannig séð skiptir okkur engu máli. Við erum bara að hugsa um okkur. Ef við gerum okkar vitum við alveg að við höfum nógu gott lið til að halda okkur uppi. Þannig ef við bara spilum okkar leik þá er alveg sama hver andstæðingurinn er, við getum alltaf sótt stig. Ef það gerist nógu oft þá ættum við alveg að halda okkur uppi nokkuð örugglega held ég.“

„En auðvitað þá þarf að mæta í leikina. Ekki eins og síðustu helgi þegar við vorum bara drullu lélegir. Þá getum við líka tapað fyrir öllum,“ sagði Sigurður Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka