Íhugaði að hætta en skoraði 100. markið í dag

Steven Lennon skoraði sitt 100. mark í efstu deild í …
Steven Lennon skoraði sitt 100. mark í efstu deild í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta var góður sigur,“ sagði skoski sóknarmaðurinn Steven Lennon í samtali við mbl.is. Lennon kom inn á sem varamaður fyrir FH í 6:1-stórsigri á ÍA í Bestu deildinni í fótbolta, skoraði eitt mark og lagði upp annað.

„Við byrjuðum mjög vel, fengum víti snemma og skoruðum mikið af mörkum. Ég hef sagt þetta eftir hvern einasta sigur, en vonandi förum við loksins að skora meira og sækja fleiri sigra,“ bætti hann við.

FH hefur átt erfitt tímabil til þessa og var leikurinn gegn ÍA mikilvægur í fallbaráttunni. En hver var lykilinn að því að skora sex mörk og vinna stórsigur?

Steven Lennon varð Íslandsmeistari með FH árið 2016. Lennon er …
Steven Lennon varð Íslandsmeistari með FH árið 2016. Lennon er fjórði frá hægri og Atli Viðar Björnsson fyrstur frá vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var settur á bekkinn,“ sagði Skotinn og hló. „Nei, ég veit það ekki. Við skoruðum mörkin á réttum tíma. Við héldum svo áfram, vorum vægðarlausir og unnum góðan sigur.“

Lennon er vanari því að vera á hinum enda töflunnar með FH og að berjast um titla. Markmið FH það sem eftir lifir tímabils er að verða bikarmeistari og halda sér í efstu deild, en liðið er komið í bikarúrslit, þar sem Evrópusæti er í boði.

Steven Lennon skorar mark fyrir FH gegn Sligo frá Írlandi. …
Steven Lennon skorar mark fyrir FH gegn Sligo frá Írlandi. Hann vill sjá FH komast aftur í Evrópukeppni. Ljósmynd/Inpho Photography

„Ég var í svipaðri stöðu með Fram þegar ég kom fyrst til Íslands. Við erum ekki með lið til að berjast um titilinn núna, en við ætlum að gefa okkur alla í baráttuna um að halda okkur í deildinni. Við eigum bikarúrslit eftir og vonandi vinnum við þann leik, förum í Evrópukeppni og byggjum á því.“

Fæ sér sæti með stóru strákunum

Lennon skoraði sitt 100. mark í efstu deild í dag og fetaði í fótspor Tryggva Guðmundssonar, Inga Björns Albertssonar, Atla Viðars Björnssonar og Guðmundar Steinssonar.

Steven Lennon skoraði fyrstu mörkin sér hér á landi með …
Steven Lennon skoraði fyrstu mörkin sér hér á landi með Fram. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Nú fæ ég sæti með stóru strákunum eins og Tryggva Guðmundssyni og Atla Viðari Björnssyni. Það eru ekki margir sem hafa afrekað þetta. Það er magnað fyrir leikmann eins og mig, sem er ekki náttúrulegur markaskorari, að ná í 100 mörk,“ sagði hann stoltur.

Mark númer 99 hjá Lennon kom gegn Stjörnunni 4. júlí og þurfti hann því að bíða í rúma tvo mánuði eftir marki númer 100. Lennon vissi vel að hann væri búinn að vera fastur í 99 mörkum í nokkrum tíma.

„Auðvitað ég vissi þetta. Fyrir tímabilið hélt ég að ég myndi ná í 100 mörk eftir nokkra leiki en vonandi held ég áfram að skora og næ Atla Viðari. Ég kom til Fram á sínum tíma á reynslu og skömmu á undan var ég að spá í að hætta í fótbolta. Það er því enn sætara að vera hér nokkrum árum seinna og kominn með 100 mörk,“ sagði Lennon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert