KR hrifsaði sætið af Stjörnunni

Eggert Aron Guðmundsson og Atli Sigurjónsson eigast við í fyrri …
Eggert Aron Guðmundsson og Atli Sigurjónsson eigast við í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Hákon Pálsson

Skipulag KR var mun betra en Stjörnunnar þegar liðin mættust í Frostaskjóli í dag og skilaði mörkum í 3:1 sigri Vesturbæinga þegar 22. umferð efstu deildar karla, Bestu deildinni, fór fram í dag.  Fyrir vikið tóku KR-ingar 5. sætið af Stjörnunni, sem er þá í sjötta sætinu.

Garðbæingar ætluðu sér að pressa heimamenn og gerðu það en komust hins vegar lítt áleiðis því vörn KR var við öllu búin.  Hinu megin var meira lagt í að byggja upp sóknir yfirvegað og leita leiða í gegnum vörn Stjörnunnar. 

Það skilaði marki á 9. mínútu þegar Theódór Elmar Bjarnason fékk smá pláss og næði rétt utan teigs, hann lagði þá boltann bara fyrir sig og þrumaði glæsilega upp í vinstra markhornið, staðan 1:0. 

Leikurinn hélt áfram á svipuðum nótum og á 14. mínútu var ekki splæst í þrumuskot heldur þræddu KR-ingar sig í gegnum vörn gestanna, Ægir Jarl Jónasson renndi boltann inn fyrir á Stefán Árna Geirsson, sem rakti boltann að markinu og á móts við vinstra markteigshornið kom skot neðst við vinstri stöngina, glæsilegt og KR komið í 2:0. 

Mótlætið braut Garðbæinga ekki niður og þeir reyndu enn meira að sækja, fengu líka tvö markskot en engin bráð hætta samt.  Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var frekar tíðindalaust, Garðbæingar höfðu að mestu stoppað upp í götin í vörninni en líka þó farnir að skjóta á markið og Beitir Ólafsson í marki KR þurfti að grípa boltann tvívegis.

Eftir hlé voru Stjörnumenn aðeins djarfari en komust sem fyrr lítt áleiðis og eftir um tíu mínútur fór KR að þyngja sóknir sínar.   Það var ekki mikið um æsileg færi og leikurinn að mestu barátta á miðjum vellinum en það gladdi þó augað að oft munaði litlu að bæði lið kæmu sér í mjög góð færi.   Á 75. mínútu greip síðan Stefán Árni til sinna ráða þegar hann lék vörn Stjörnunnar vinstra megin grátt, komst upp á vinstra markteigshorninu og skoraði af miklu öryggi undir Harald Björnsson í markinu.  Þar með var sigur KR alveg innsiglaður.   Undir lokin var mest um spjöld og skiptingar nema hvað Garðbæingar hófu síðustu mínúturnar að sækja af miklu krafti og fengu nokkur færi, tókst síðan skora þegar Jóhann Árni Gunnarsson skoraði af miklu öryggi úr víti eftir að Eggert Aron Guðmundsson var felldur í teignum  87. mínútu , lokastaðan 3:1.

Sem fyrr segir fór KR upp um eitt sæti með sigri sínum og eftir öðrum úrslitum í dag.  Er nú með 30 stig og öruggt í efri hluta deildarinnar, tveimur stigum meira en Stjarnan og 5 stigum meira en Fram og Keflavík.  KR á síðan Víkinga í lokaleiknum næsta laugardag.

Með sín 28 stig í 6. sæti er ætti Stjarnan ekki vera örugg um sæti í efri hluta deildarinnar, því Fram og Keflavík eru skammt undan með 25 stig.  Hins vegar mætast KR og Keflavík í næsta leik á meðan Garðbæingar fá FH í heimsókn.

KR 3:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert