Strákarnir gerðu þetta ofboðslega vel

Markaskorari Leiknismanna, Birgir Baldvinsson í baráttunni við Orra Hrafn Kjartansson …
Markaskorari Leiknismanna, Birgir Baldvinsson í baráttunni við Orra Hrafn Kjartansson leikmann Vals í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var ánægður með sína menn eftir 1:0-sigur á Val í Breiðholtinu í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. Leiknismenn töpuðu 9:0 gegn Víkingi í síðustu umferð og ætluðu greinilega að svara fyrir þá frammistöðu í dag.

„Ég er ofboðslega sáttur. Það er erfitt fyrir öll lið að mæta liði sem var sært svona illa nokkrum dögum áður. Við vorum meira en tilbúnir, mjög laskaðir og það gerir þetta ennþá sætara. Mennirnir sem komu inn og mennirnir sem voru að spila úr stöðu stóðu sig vel, við misstum mann í morgun síðast sem átti að byrja. Það er sérstaklega sætt að fara í gegnum þennan leik einum færri og gera það svona ofboðslega vel.“

Zean Dalugge fékk að líta beint rautt spjald í liði Leiknis á 19. mínútu. Liðið var því manni færri í rúmlega 70 mínútur.

„Við höldum skipulaginu varnarlega. Við töluðum um það í hálfleik að við værum alveg jafn margir að verja teiginn okkar þó við værum manni færri, svo við héldum því bara áfram. Í rauninni gerði það bara það að verkum að við vorum með færri menn til þess að sækja. Við nýttum þetta bara til fullnustu og strákarnir gerðu þetta ofboðslega vel.“

Leiknir er í mikilli fallbaráttu en liðið er nú með 17 stig í 11. sæti, tveimur stigum minna en FH.

„Við erum svona að reyna að tjasla mönnum saman fyrir lokahnykkinn. Þetta er náttúrlega bara sex leikja úrslitakeppni framundan, við eigum Skagann í næsta leik. Þetta hlýtur að gefa okkur ákveðna orku fyrir framhaldið og við sjáum að við erum með hugarfarið í að halda okkur uppi.“

Adam Örn Arnarsson fór meiddur af velli í leiknum. Sigurður gat ekki sagt til um hversu alvarleg meiðslin væru.

„Hann er búinn að vera í veseni með nárann á sér og þetta hefur örugglega bara verið eitthvað svoleiðis. Það er bara enn eitt verkefnið sem við þurfum að díla við.“

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis.
Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert