„Takk fyrir mig Ísland“

Sif Atladóttir hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna.
Sif Atladóttir hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Sif Atladóttir hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Þetta tilkynnti hún í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlinum Instagram en Sif, sem er 37 ára gömul, á að baki 90 A-landsleiki fyrir Ísland.

Hún var í leikmannahópi íslenska landsliðsins sem tók þátt í lokakeppni Evrópumótsins á Englandi í sumar og var í byrjunarliði Íslands þegar liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Belgíu í Manchester í 1. umferð riðlakeppninnar.

Alls fór hún á fjögur stórmót með íslenska liðinu en hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Ítalíu á Algarve-mótinu í mars árið 2007, þá 21 árs gömul.

Allt tekur sinn enda,“ skrifaði Sif á Instagram.

„Eftir 15 ár, 90 landsleiki og 4 stórmót þá er kominn tími á að ég hengi upp bláu treyjuna með stolt í hjarta. Til ykkar allra sem hafa verið hluti af mínu ferðalagi vil ég segja Takk.

Ég hef gefið hjarta, líkama og sál í búninginn og hef ég borið hann með stolti. Það hefur verið minn heiður að spila fyrir ykkur. Takk fyrir mig Ísland,“ bætti Sif við.

Hún er hinsvegar langt frá því að vera hætt í fótboltanum en Sif skrifaði í vikunni undir nýjan samning við Selfyssinga til tveggja ára.

View this post on Instagram

A post shared by Sif Atladottir (@sifatla)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert