Veit að dómarinn vildi ekki gefa rautt spjald

Ísak Bergmann Jóhannesson sækir að Albönum í Tirana í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson sækir að Albönum í Tirana í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Liðið barðist allan tímann og við gáfumst aldrei upp,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Viaplay eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Albaníu í B-deild Þjóðadeildarinnar í Tirana í Albaníu í kvöld.

„Það hefur slokknað aðeins á þeim síðustu tuttugu mínúturnar í síðustu leikjum þeirra og við vorum meðvitaðir um það. Ég gæti í raun ekki verið stoltari af öllum 23 leikmönnunum mínum. Þeir trúðu því allir að við gætum fengið eitthvað út úr þessum leik.

Við ræddum það líka í hálfleik að ef við myndum halda áfram að hlaupa fyrir hvorn annan þá myndum við fá færi. Þeir sem byrjuðu inn á stóðu sig frábærlega og þeir sem komu inn á stóðu sig frábærlega líka,“ sagði Arnar.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fékk að líta beint rautt spjald á 10. mínútu og var íslenska liðið því einum manni færri í tæpar 90 mínútur þar sem uppbótartíminn var rúmlega sjö mínútur.

„Mér fannst þetta ansi harður dómur. Það var togað í Aron og sóknarmaðurinn komst þannig fram fyrir hann. Ég veit að dómarinn vildi ekki gefa þetta rauða spjald en svona er þetta. Við vorum tilbúnir með plan B sem strákarnir útfærðu fullkomlega,“ sagði Arnar Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert