„Gaman að fá nýjan mótherja“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hvíta-Rússlandi …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, einn reynslumesti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir það skemmtilegt að mæta nýjum mótherja í umspilinu um laust sæti á HM 2023.

Portúgal vann Belgíu, sem Ísland gerði 1:1-jafntefli við á EM 2022 í sumar, í Portúgal í gær og mætir því Íslandi næstkomandi þriðjudag, í Pacos de Ferreira ytra.

„Mér líst bara mjög vel á andstæðinginn. Við hefðum verið til í hvorn sem er og vorum búin að undirbúa okkur fyrir það að fá annað hvort Portúgal eða Belgíu.

Við erum náttúrlega nýbúin að spila við Belgíu nýlega þannig að það er gaman að fá nýjan mótherja,“ sagði Gunnhildur Yrsa í samtali við KSÍ TV í dag.

Ísland lék síðast landsleik gegn Portúgal í mars árið 2019, þegar íslenska liðið hafði öruggan 4:1-sigur í Algarve-bikarnum

„Við vissum að þetta myndi verða hörkuleikur, hvort sem við myndum fá, en loksins getum við núna byrjað að undirbúa okkur almennilega nú þegar við vitum hann,“ bætti hún við.

Kom ekki á óvart

Gunnhildur Yrsa sagði það ekki hafa komið sér á óvart að Portúgal hafi skákað Belgíu.

„Nei, alls ekki. Þær eru með hörkulið og líka Belgía. Það sást á EM að þær stóðu sig frábærlega og eru með mjög sókndjarft lið þannig að við þurfum að koma fastar á móti þeim. Þetta kom mér eiginlega ekkert á óvart.“

Flinkar og vilja halda boltanum

En hvað þarf Ísland að gera til þess að tryggja sér sigur og þar með sæti HM í fyrsta skipti?

„Ég held bara fyrst og fremst að spila okkar leik. Við erum náttúrlega með hörkugott lið og ef við einbeitum okkur að því spila okkar leik vel þá er erfitt að vinna okkur.

Ég held að ef við mætum með sjálfstraust og baráttuna þá getur allt gerst. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur en það náttúrlega sást í þeirra leik á móti Belgíu að þær eru með mjög fljóta framherja og vilja halda í boltann.

Þetta er svona smá „possession“ lið og þær eru flinkar. Við þurfum bara að loka á það,“ sagði Gunnhildur Yrsa að lokum í samtali við KSÍ TV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert