HM-draumurinn úti eftir framlengingu í Portúgal

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mátti sætta sig við 1:4-tap fyrir Portúgal eftir framlengingu þegar liðin áttust við í umspili um laust sæti á HM 2023 í Pacos de Ferreira í kvöld. Ísland lék einum færri í tæplega 70 mínútur eftir að Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk furðulegt beint rautt spjald.

Í fyrri hálfleik voru heimakonur í Portúgal sterkari aðilinn þar sem framherjinn Jéssica Silva ógnaði sérstaklega og í sífellu, ekki síst eftir hættuleg einstaklingsframtök sín. Skot hennar fóru þó ýmist fram hjá eða beint á Söndru Sigurðardóttur í marki Íslands.

Besta færi Portúgals í hálfleiknum fékk þó nafna hennar Diana Silva á 20. mínútu. Tatiana Pinto gaf þá fyrir, fann Jéssicu Silva við endalínuna, hún gaf viðstöðulaust fyrir á lofti og fann þar Diönu sem var ein fyrir miðjum vítateignum, tók skot á lofti en Sandra varði frábærlega yfir markið.

Besta færi Íslands og jafnframt besta færi fyrri hálfleiks fékk hins vegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fjórum mínútum fyrir leikhlé.

Áslaug Munda tók þá hættulega aukaspyrnu utan af velli, eftir nokkurn darraðardans við markteig Portúgals barst boltinn út til Gunnhildar Yrsu sem tók hnitmiðað skot yfir Patriciu Morais í marki Portúgals og boltinn small í þverslánni.

Markalaust var því í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks færðist fjör í leikana.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom Íslandi í forystu á 49. mínútu eftir að hún slapp óvænt í gegn og kom boltanum í netið.

Tveimur mínútum síðar var markið hins vegar dæmt af eftir að Stéphanie Frappart, franskur dómari leiksins, fór í VAR-skjáinn. Var dæmt peysutog á Guðnýju Árnadóttur í aðdraganda marksins.

Örskömmu síðar átti Diana Silva skalla sem fór í utanverða stöngina og mínútu síðar, á 52. mínútu, dró sannarlega til tíðinda þegar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir braut á Jéssicu Silva innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.

Frappart gaf Áslaugu Mundu beint rautt spjald að auki þar sem hún taldi hana hafa rænt Jéssicu upplögðu marktækifæri.

Frappart fékk ábendingu um að fara í VAR-skjáinn þar sem Ingibjörg Sigurðardóttir var fyrir innan Jéssicu og Áslaugu Mundu og portúgalski sóknarmaðurinn einnig á leið til hliðar.

Þrátt fyrir að hafa athugað málið nánar ákvað Frappart að halda sig við upphaflega ákvörðun sína og Ísland því einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks.

Carole Costa steig loks á vítapunktinn og skoraði af öryggi á 55. mínútu.

Þrátt fyrir að vera einum færri var íslenska liðið fjarri því að vera á þeim buxunum að leggja árar í bát.

Aðeins fjórum mínútum síðar var Ísland nefnilega búið að jafna metin.

Þar var að verki Glódís Perla Viggósdóttir með glæsilegum skalla af markteig, sem fór niður í bláhornið eftir frábæra aukaspyrnu Selmu Sólar Magnúsdóttur af vinstri kantinum.

Eftir jöfnunarmark Íslands var jafnræði með liðunum þrátt fyrir liðsmuninn.

Á 72. mínútu fékk Sveindís Jane sannkallað dauðafæri. Hún fékk þá boltann frá varamanninum Svövu Rós Guðmundsdóttur sem hafði gert vel í að halda boltanum, Sveindís Jane tók vel við boltanum, fór framhjá Diönu Gomes og skaut en boltinn naumlega fram hjá fjærstönginni.

Fimm mínútum síðar dæmdi Frappart aðra vítaspyrnu og aftur fékk Portúgal hana. Hún mat það sem svo að varamaðurinn Alexandra Jóhannsdóttir hefði handleikið boltann en eftir að hafa farið í VAR-skjáinn dró Frappart ákvörðunina réttilega til baka enda hélt Alexandra báðum höndum að sér.

Undir blálokin ógnaði Portúgal í sífellu enda pressan orðin gífurleg fyrir þreyttar íslenskar landsliðskonur.

Mögnuðu íslensku liði tókst þó að halda út í venjulegum leiktíma og þar með þurfti að grípa til framlengingar.

Strax í upphafi framlengingarinnar, á 92. mínútu, náði Portúgal hins vegar forystunni á ný.

Diana Silva fékk þá mikið pláss á vinstri kantinum eftir skyndisókn, henni tókst með naumindum að komast fram hjá Guðnýju, tók svo laglegu fintu þar sem Sandra lagðist í jörðina og Silva renndi svo boltanum snyrtilega niður í hornið.

Besta færi Íslands í framlengingunni fékk varamaðurinn Agla María Albertsdóttir undir lok fyrri hálfleiks hennar. Þá fann Dagný Brynjarsdóttur hana í vítateignum en skot Öglu Maríu kom örlítið of seint þar sem varnarmaður Portúgals komst fyrir það.

Í upphafi síðari hálfleiks framlengingarinnar gerði Portúgal svo endanlega út um leikinn þegar Tatiana Pinto skoraði með laglegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf varamannsins Andreiu Jacinto.

Í uppbótartíma framlengingarinnar kom svo fjórða markið. Það skoraði varamaðurinn Francisca Nazareth eftir laglegt einstaklingsframtak.

Þar við sat og 4:1-sigur Portúgals niðurstaðan, sem gæti fleytt liðinu á HM í fyrsta skipti en það skýrist síðar í kvöld hvort hann komi liðinu beint þangað eða hvort það þurfi að fara í annað umspil.

Portúgal 4:1 Ísland opna loka
120. mín. Ísland fær hornspyrnu Hún er skölluð frá.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert