Keyptur aftur til Breiðabliks frá Malmö

Ágúst Orri Þorsteinsson er kominn aftur í búning Breiðabliks.
Ágúst Orri Þorsteinsson er kominn aftur í búning Breiðabliks. Ljósmynd/blikar.is

Breiðablik hefur keypt 17 ára gamlan knattspyrnumann, Ágúst Orra Þorsteinsson, af Malmö í Svíþjóð fyrir sömu upphæð og hann var seldur á til sænska félagsins fyrir ári síðan.

Ágúst Orri, sem verður 18 ára í næstu viku, hefur samið við Breiðablik til þriggja ára en hann hafði þegar leikið einn leik með meistaraflokki félagsins í efstu deild árið 2021, þá sextán ára að aldri.

Í tilkynningu frá Breiðabliki segir Ágúst að það hefði verið hans vilji að snúa aftur og æfa og leika með meistaraflokki Breiðabliks í stað þess að vera í U19 ára liði hjá Malmö.

Ólafur Garðarsson umboðsmaður segir í tilkynningunni að Malmö hefði tekið ósk Ágústar fagmannlega en reynt að fá hann til að skipta um skoðun. Í framhaldi af því hefðu þrjú til fjögur lið í efstu deild á Íslandi viljað fá hann í sínar raðir en Ágúst hefði sjálfur verið ákveðinn í að snúa aftur til Breiðabliks.

Þar er jafnframt haft eftir Ólafi Kristjánssyni, yfirmanni knattspyrnumála hjá Breiðabliki, að Blikar hafi séð mikið eftir Ágústi þegar hann fór til Malmö og þeir séu mjög ánægðir með að fá hann til baka, enda hafi þeir mikla trú á honum. „Núna æfir hann vel með meistaraflokki og ég hef fulla trú á því að hann verði lykilmaður hjá okkur á næstu árum og verði hugsanlega seldur aftur út,“ segir Ólafur í tilkynningunni og þakkar jafnframt Malmö fyrir góð viðbrögð við beiðninni um að fá Ágúst til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert