Sara hætt með íslenska landsliðinu

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði Íslands um árabil.
Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði Íslands um árabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu um árabil og leikjahæsta landsliðskonan í sögunni, hefur ákveðið að hætta að leika með íslenska landsliðinu.

Hún tilkynnti þetta á Instagram í dag og segir þar:

„Eftir sextán ár með landsliði þjóðar minnar hef ég ákveðið að hætta. Fyrir mig hefur það verið gríðarleg ánægja og heiður en ég veit að á þessum tímapunkti á mínum ferli er rétt að kveðja.

Þetta hefur verið magnað ferðalag. Ég hef ávallt verið mjög stolt af því að klæðast bláu landsliðstreyjunni, frá fyrsta degi.

Að vera hluti af liðinu sem komst í fyrsta skipti í lokakeppni EM árið 2009 og taka þátt í fjórum lokamótum EM er nokkuð sem ég er afar stolt af.

Ég vil þakka Knattspyrnusambandi Íslands, öllum þjálfurunum, starfsliðinu, leikmönnunum og sjálfboðaliðunum sem hafa tekið þátt í  ferðalaginu með mér, ásamt öllum þeim minningum sem ég á um þennan tíma.

Ég óska sambandinu og öllu liðinu alls hins besta og bjartrar framtíðar."

Sara Björk er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi en hún lék sinn 145. og síðasta landsleik gegn Portúgal í október þegar íslenska liðið tapaði í framlengdum úrslitaleik um sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins.

Þá er hún fjórði markahæsti leikmaður landsliðsins í sögunni með 24 mörk.

Hún lék fyrsta landsleikinn aðeins 16 ára gömul gegn Slóveníu á útivelli í undankeppni EM árið 2007.

Sara Björk er 32 ára gömul og lék með Haukum og Breiðabliki hér á landi en hefur frá 2011 leikið sem atvinnumaður með Malmö/Rosengård í Svíþjóð, Wolfsburg í Þýskalandi, Lyon í Frakklandi og leikur nú með Juventus á Ítalíu.

Hún hefur unnið fjölda meistaratitla í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi og varð Evrópumeistari með Lyon sumarið 2020 þegar hún skoraði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn sínu gamla félagi Wolfsburg.

Sara er eina konan sem hefur verið kjörin íþróttamaður ársins á Íslandi tvisvar sinnum af Samtökum íþróttafréttamanna en hún hlaut þann titil árin 2018 til 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert