Veðjaði á fimm leiki með eigin liði

Sigurður Gísli Bond Snorrason í leik með Þrótti úr Vogum …
Sigurður Gísli Bond Snorrason í leik með Þrótti úr Vogum sumarið 2021. Ljósmynd/Guðmann Rúnar Lúðvíksson

Sigurður Gísli Bond Snorrason, fyrrverandi leikmaður Aftureldingar í knattspyrnu, veðjaði á hundruð knattspyrnuleikja hér á landi síðasta sumar, þar á meðal fimm leiki hjá sínu eigin liði. Tók hann þátt í fjórum af þeim fimm leikjum.

Heimildin greinir frá þessu.

Í reglugerð Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, um knattspyrnumót segir að leikmönnum sem taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum sambandsins sé óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leiki og mót.

Málið til meðferðar

Öllum knattspyrnumönnum sem eru samkvæmt stöðluðum samningi KSÍ samningsbundnir íslenskum liðum er þá óheimilt að veðja á leiki í íslenska boltanum. Slíkan samning var Sigurður Gísli með hjá Aftureldingu.

Veðjaði hann aftur á móti á hundruði leikja í hinum ýmsu deildum og flokkum á Íslandi og því allt útlit fyrir að Sigurður Gísli hafi þverbrotið reglur sambandsins.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ er með mál Sigurðar Gísla til meðferðar eftir að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri sambandsins, vísaði því þangað, samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert