„Við erum aðeins betri en Portúgal“

Arnar Þór Viðarsson í dag.
Arnar Þór Viðarsson í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það er ekki sjálfgefið að skora sjö,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, eftir stórsigur Íslands á Liechtenstein, 7:0, í Vaduz í Liechten­stein í und­an­keppni EM karla 2024. 

Ísland tapaði illa fyrir Bosníu, 0:3, á fimmtudaginn var en svaraði því vel í dag. Aron sagði í samtali við Viaplay að hann væri sáttur með drengina í dag. 

„Ég er rosalega stoltur af drengjunum. Þetta voru nákvæmlega viðbrögðin sem við vildum fá eftir leikinn á fimmtudaginn. Það var erfiður dagur á föstudaginn en við náðum að stilla okkur af, bæta það sem við þurftum að bæta og skoruðum sjö mörk. 

Þetta hefði í rauninni getað orðið mikið stærri sigur. Það að ná að halda tempóinu svona háu allan leikinn, skapa öll þessi færi og skora öll þessi mörk er nákvæmlega það sem við viljum. 

Við viljum reyna að sækja á ákveðinn hátt, sækja betur og meira og það gekk mjög vel í dag. Það er ekki sjálfgefið að skora sjö mörk. Þannig að ég er bara rosalega stoltur af drengjunum. Þeir eiga stórt hrós skilið.“

Ertu ekki stoltur að vera við stjórnvölin þegar stærsti sigur Íslands í mótleik kemur?

Það er ekkert annað, jú,jú, ég er bara ánægður með leikinn. Hvort sem það er stærsti mótsigurinn eða ekki, ég vissi það meira að segja ekki, en það er bara jákvætt. 

Portúgal vinnur Liechtenstein 4:0 á heimavelli, þannig við erum aðeins betri en Portúgal,“ sagði Arnar í léttu bragði. 

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði þrennu í leik dagsins, tvö skallamörk og eitt af vítapunktinum. Aron var í banni í tapinu gegn Bosníu og segir Aron að mikilvægi hans sé löngu vitað.

„Já, ég talaði um það á blaðamannafundinum í gær og það er eitthvað sem er vitað. Í september-verkefninu í fyrra kom hann aftur inn og sýndi hversu mikilvægur hann væri fyrir þetta lið, ekki bara innanvallar líka utanvallar. 

Þú sérð það þegar við erum að spila að það sé hann sem er að stýra og stjórna liðinu. Svo skoraði hann þrjú sem er bara frábært. Hann getur tekið boltann með sér heim.“

Kom eitthvað annað til greina en að Aron tæki vítaspyrnuna? 

„Nei, ekki fyrst að bæði Alfreð og Jóhann voru farnir út af og hann var búinn að skora tvö, enda setti hann boltann í vinkilinn.“

Hvað gefur svona sigur ykkur? 

„Við vorum rosalega svekktir og fúlir með byrjunina á fimmtudaginn. Við erum ekkert að fela okkur á bak við það. 

Við erum líka búnir að tala mikið saman og segja við hvor annan að við vildum nota þann leik til að læra af honum. Ein af ástæðunum fyrir tapinu gæti hafa verið að þetta var fyrsti alvöru mótsleikurinn fyrir marga leikmenn og það var smá spenna. 

Við þurfum að læra að spila þessa leiki og læra mjög hratt að spila þá betur. Það er eitthvað sem við tökum með okkur í júnígluggann. 

En eftir stórt tap þá þarftu að standa upp og vera góður karakter og það voru 24 í hópnum í dag sem gerðu það frábærlega,“ sagði Arnar að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert