Fjögur mörk í skemmtilegum leik í Kaplakrika

Viktor Karl Einarsson skorar framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í dag.
Viktor Karl Einarsson skorar framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslandsmeistarar Breiðabliks og FH skildu jöfn, 2:2, í skemmtilegum leik í Bestu deild karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í dag. Breiðablik er í öðru sæti með 24 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Víkings úr Reykjavík, sem á leik til góða. FH er í fjórða sæti með 17 stig.

FH fékk fín tækifæri til að skora fyrsta mark leiksins á fyrstu tíu mínútunum, en án árangurs. Blikarnir refsuðu fyrir það á 14. mínútu þegar Stefán Ingi Sigurðarson skoraði með fallegu skoti við vítateigslínuna eftir snögga sókn.

Aðeins fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Viktor Karl Einarsson forskot Breiðabliks er hann slapp í gegn eftir sendingu frá Klæmint Olsen og skoraði af öryggi. Næstu mínútur voru Blikar líklegri til að skora þriðja markið en FH að minnka muninn, en Blikum voru mislagðar fætur.

Eftir því sem leið á hálfleikinn náði FH betri tökum á leiknum og það skilaði sér í marki á 35. mínútu. Þar var að verki Davíð Snær Jóhannesson með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Kjartani Kára Halldórssyni. Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks og Breiðablik fór með 2:1-forystu í hálfleikinn.

Sú forysta entist í tíu mínútur í seinni hálfleik, því Davíð Snær jafnaði með sínu öðru marki og öðru marki FH á 55. mínútu. Hann kláraði þá vel úr teignum eftir sendingu frá Loga Hrafni Róbertssyni.

Liðin skiptust á að skapa sér færi eftir það og komst FH nálægt því að skora á 85. mínútu þegar Logi Hrafn og Kjartan Kári fengu báðir góð færi í sömu sókninni en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði mjög vel frá þeim báðum.

Það reyndust síðustu góðu færi leiksins og liðin skiptu með sér stigunum, sem er sennilega sanngjörn niðurstaða 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudag.  

FH 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sjö mínútur í uppbótartíma. Nóg eftir!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert