„Hefðum átt að nýta færin okkar betur“

Það var hart barist í leik KA og Fylkis í …
Það var hart barist í leik KA og Fylkis í dag. Thorir Tryggvason 8983357

Ísfirðingurinn Þórður Gunnar Hafþórsson var ekki hár í loftinu þegar hann mætti í Arsenal-skólann á KA-svæðinu á Akureyri nokkur ár í röð. Hann gat rifjað upp einhverjar minningar og takta þegar hann mætti með sínum mönnum í Fylki á KA völlinn til að spila gegn KA í Bestu-deildinni.

Því miður fyrir Þórð Gunnar þá tapaði Fylkir leiknum 1:2. Kappinn virtist þó finna sig vel á fornum slóðum og var hreinlega mjög óheppinn að skora ekki í leiknum. Komst hann í dauðafæri í stöðunni 2:0 en Kristijan Jajalo varði frábærlega frá honum.

Þórður Gunnar kom í viðtal eftir leik og var málefnalegur og prúður, alveg eins og þegar hann var í Arsenalskólanum en einhverir KA-þjálfarar minnast hans einmitt fyrir dugnað, prúðmennsku og gott jafnaðargeð.

Sæll Þórður. Þú ert væntanlega hundfúll með úrslitin í leiknum.

„Vissulega er þetta fúlt. Við hefðum átt að nýta færin okkar betur og þá hefðum við örugglega komið með stig í pokanum heim.“

Nýta færin segir þú. Hvað kom í veg fyrir það og að KA hafi skorað oftar en þið?

„Ég veit það eiginlega ekki. Það er erfitt að segja. Við fáum á okkur tvö klaufaleg mörk og síðan erum við bara í vandræðum með að koma boltanum yfir línuna. KA var ekki að gera mikið meira en þessi tvö mörk, fengu reyndar dauðafæri í bálokin þegar við reyndum að jafna.“

Fylkir hafði ekki tapað fjóra leiki í röð og náð úr þeim átta stigum af sínum ellefu. Það mátti sjá á spilamennsku liðsins í dag að menn komu nokkuð öflugir til leiks og með gott sjálfstraust. Þetta tap hlýtur því að svíða.

„Það er eiginlega hræðilegt að fá engin stig úr leiknum. Sérstaklega svona fyrir landsleikjahlé. Það er of langt í að við getum bætt fyrir þetta.“

Nú ert þú hérna á kunnuglegum slóðum. Þú komst í Arsenalskólann nokkrum sinnum hér á KA-svæðinu. Beint frá Ísafirði og þekktir varla nokkurn mann. Myndir þú segja að það hafi verið góður skóli fyrir þig?

„Já alveg klárlega. Þetta var á þeim tíma alveg geggjað. Þjálfararnir voru mjög góðir. Ég man að ég mætti bara einn að vestan fyrsta árið og þekkti engan. Maður kynntist fullt af krökkum og spilaði fótbolta allan daginn, við frábærar aðstæður. Þetta gerði mikið fyrir mig og ég mæli með svona skólum. Ég lærði alveg helling þegar ég kom hingað í skólann.“

Þú minntist á landsleikjahlé. Næsti leikur ykkar er eftir 13 daga, gegn Keflavík.

„Við komum bara sterkari í þann leik og ætlum að vinna.“

Ertu ánægður með gengi ykkar í deildinni það sem af er?

„Já nokkuð. Mér finnst samt að við gætum verið með fleiri stig. Við höfum bara verið óheppnir í einhverjum leikjum og tapað niður stigum hér og þar. Að mínu mati gætum við verið ofar í töflunni“ sagði Þórður Gunnar sprækur í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert