Tveir heimasigrar og hádramatískt jöfnunarmark

Afturelding er á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu.
Afturelding er á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír leikir fóru fram í 1. deild karla í fótbolta í dag og er óhætt að segja að boðið hafi verið upp á markaveislu því alls voru skoruð ellefu mörk í þessum þremur leikjum.

Afturelding tók á móti Vestra í Mosfellsbænum og endaði leikurinn með sigri Aftureldingar, 3:1.

Georg Bjarnason kom heimamönnum yfir strax á 5. mínútu þegar hann skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu. Elmar Kári Enesson Cogic tvöfaldaði forystu Aftureldingar á 42. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Georgs í netið. Heimamenn komust í 3:0 þegar fyrirliði liðsins, Aron Elí Sævarsson, skoraði á 68. mínútu með skalla eftir að markvörður Vestra hafði misst af boltanum. Það var síðan Benedikt V. Warén sem að minnkaði muninn fyrir gestina á 79. mínútu. 

Afturelding er með 16 stig á toppi deildarinnar en Vestri er í 10. sæti deildarinnar með 5 stig.

Í Laugardalnum tók Þróttur á móti Þór og vann heimaliðið sannfærandi sigur, 3:0.

Jorgen Petterssen skoraði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu eftir sendingu frá Hinriki Harðarsyni. Aron Snær Ingason tvöfaldaði forystu heimamanna á 48. mínútu eftir aðra stoðsendingu frá Hinriki. Aron bætti síðan við sínu öðru marki á 76. mínútu eftir flotta stoðsendingu frá Baldri Hannesi Stefánssyni.

Þróttur er í 8. sæti með 4 stig en Þór situr í 5. sæti með 9 stig.

Í Breiðholtinu mættust Leiknir R. og Grindavík og enduðu leikar með jafntefli, 2:2.

Gestirnir komust í 2:0 forystu með mörkum frá Marko Vardic og Edi Horvat. Daníel Finns Matthíasson minnkaði muninn fyrir heimamenn á 69. mínútu og Róbert Hauksson jafnaði metin á 86. mínútu eftir stoðsendingu frá Daníel.

Leiknir R. er í 11. sæti með 4 stig en Grindavík er í 3. sæti með 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert