Blikar skjóta Íslandi upp UEFA-listann

Byrjunarlið Breiðabliks fyrir leikinn gegn Shamrock Rovers í Dublin í …
Byrjunarlið Breiðabliks fyrir leikinn gegn Shamrock Rovers í Dublin í gærkvöld. Ljósmynd/Inpho Photography

Þrír sigrar Breiðabliks í forkeppni og undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta koma íslenskum félagsliðum vel.

Ísland er fyrir vikið einn af hástökkvurum styrkleikalista UEFA fyrir félagsliðin þessa dagana. Áður en forkeppnin hófst í síðasta mánuði var Ísland í 47. sæti af 55 þjóðum Evrópu en eftir þrjá sigurleiki, gegn Tre Penne og Buducnost á Kópavogsvelli og gegn Shamrock Rovers í Dublin í gærkvöld, er Ísland komið í 44. sætið.

Styrkleikalistinn ræður sætum þjóðanna í Evrópumótunum. Ísland missti eitt sæti fyrir þremur árum þegar landið datt niður í 52. sæti styrkleikalistans og hefur því verið með þrjú lið í Evrópumótum karla undanfarin tvö ár í stað fjögurra áður.

Eftir síðasta tímabil var ljóst að Ísland hefði unnið sér inn sætið á ný frá og með sumrinu 2024 og þrír sigrar Breiðabliks í þremur fyrstu leikjunum hafa nú styrkt stöðuna enn frekar.

Ísland er með þeim komið upp fyrir Möltu, Lúxemborg og Georgíu á listanum og er nú skammt á eftir Eistlandi, Litháen og Færeyjum sem eru næstar þar fyrir ofan.

Neðri hluta listans má sjá hér fyrir neðan en Ísland var í fjórða neðsta sætinu í tvö ár og það er ástæða þess að Breiðablik þurfti að fara í forkeppnina í sumar og Víkingar sömuleiðis á síðasta sumri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert