Einblíndum ekki bara á að skora sem mest

Agla María Albertsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Agla María Albertsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við virðumst þurfa að skjóta ansi mikið á markið til að skora mörk en þetta var bara fínt og eina sem skiptir máli að við sigruðum,“ sagði Agla María Albertsdóttir sem skoraði fyrsta mark Breiðabliks í 4:0-sigri á Selfyssingum þegar liðin mættust í Kópavoginum í kvöld til að spila í efstu deild kvenna í fótbolta en Blikakonur áttu 28 skot á mark gestanna. 

„Við vorum ekki að einblína að skora sem mest enda geta verið snúnir leikir á móti Selfyssingum – mikilvægt að koma marki á á þá og mér fannst þeir brotna svolítið þegar við vorum búnar að skora nokkur mörk svo að seinni hálfleikur var galopinn. Við fengum þá öll þessi færi og hefði verið skemmtilegra að skora fleiri mörk.  Reyndar held ég að einn boltinn hafi verið inni en það var ekkert dæmt, það er svo annað mál.“

Breiðablik átti möguleika á að taka efsta sætið í deildinni af Val en það gekk ekki upp því Valskonur sneru við leiknum gegn Þrótti, unnu og halda efsta sætinu en Agla María segir það ekki málið.

„Við erum svo sem ekkert að hugsa um að elta annað lið í deildinni, heldur safna eins mörgum stigum og hægt er því við eigum eftir að mæta Val og fleiri liðum þegar úrslitakeppnin fer í gang svo við erum ekkert að horfa svo mikið á stöðutöfluna og þetta skiptir þá ekki máli. 

Við eigum þétt leikjaprógramm fram undan en það er reyndar bara skemmtilegra, nú er leikur á mánudaginn og svo bikarúrslitin en við þurfum bara að byrja á mánudaginn að taka þrjú stig áður en maður fer að huga að bikarúrslitunum,“ sagði markaskorarinn, sem hefur skorað flest mörk liðsins í deildinni, alls sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert