Tók ekki þátt í æfingu Íslands

Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Hákon Arnar Haraldsson tók ekki þátt í æfingu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Vínarborg í Austurríki í dag.

Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en Hákon Arnar, sem er tvítugur, er að glíma við smávægileg meiðsli á kálfa.

Allir aðrir leikmenn íslenska liðsins tóku þátt í æfingunni en Ísland mætir Slóvakíu í Bratislava þann 16. nóvember og Portúgal í Lissabon 19. nóvember í J-riðli undankeppni EM 2024.

Leikmenn og starfslið íslenska liðsins munu ferðast til Slóvakíu á morgun en liðið hefur dvalið í  Vínarborg í vikunni við æfingar. 

Ísland er í fjórða sæti riðilsins með tíu stig, Portúgal er í efsta sætinu með 24 stig eða fullt hús stiga og Slóvakía er í öðru sætinu með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert