Arnór Ingvi Traustason veit ekki hver staðan á honum er fyrir leikinn gegn Úkraínu á þriðjudagskvöldið en hann þurfti að fara af velli á 62. mínútu gegn Ísrael í umspilsleiknum í Búdapest í kvöld.
„Ég fékk aðeins aftan í lærið en er að vonast til þess að þetta sé ekki tognun. Ég reyndi að vera nægilega klókur, settist niður strax og ég fann fyrir þessu, þannig að við skoðum þetta vel. Mín tilfinning er sú að þetta sé ekki tognun og vonandi gengur það eftir," sagði Arnór Ingvi við mbl.is eftir leikinn.
„Ég er mjög sáttur við frammistöðuna í kvöld. Það var ekki mikið búið að gerst í leiknum þegar við fengum þessa vítaspyrnu á okkur. Það bjuggust margir við því að þetta yrði sveiflukenndur leikur og þegar við fórum að halda betur í boltann og þrýsta þeim aftar á völlinn fengum við sjálfstraustið og uppskárum í framhaldi af því þessi tvö mörk."
Hann var kominn af velli þegar Ísrael fékk tækifæri til að jafna úr sinni annari vítaspyrnu í leiknum en þá skaut Eran Zahavi framhjá íslenska markinu.
„Það var erfitt að fá á okkur þessa seinni vítaspyrnu, VAR hefur ekki verið okkar besti vinur í þessari undankeppni, og þetta var stressandi en sem betur fer skaut hann bara framhjá markinu. Það var mjög erfitt að fylgjast með leiknum utan vallar síðasta hálftímann og geta ekkert gert sjálfur," sagði Arnór.
Hann tók undir það að íslenska liðið hefði sýnt mikinn karakter í kvöld.
„Já, alveg klárlega. Við vitum að það er svakalega mikill karakter í þessu liði og ég vil sérstaklega hrósa ungu leikmönnunum sem taka á sig þvílíka ábyrgð og gera það mjög vel. Svo er vægt til orða tekið að segja að Albert hafi komið sterkur inn í liðið. Mér kemur frammistaða hans ekkert á óvart. Hann er ótrúlega góður leikmaður.
Nú er bara að halda áfram, fara til Póllands og komast alla leið," sagði Arnór Ingvi Traustason sem var leikjahæstur þeirra Íslendinga sem tóku þátt í leiknum en þetta var hans 55. landsleikur og markið var hans sjötta mark fyrir A-landslið Íslands.