FH og Þór/KA mættust á Ásvöllum í Hafnarfirði í 2. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Leikurinn gat ekki farið fram á heimavelli FH þar sem grasvöllur Fimleikafélagsins er ekki tilbúinn.
Strekkings vindur hafði áhrif á spilamennsku liðana fyrstu mínúturnar en það voru norðankonur sem voru fyrr til að venjast aðstæðum og ná upp ágætu spili. FH spilaði mörgum löngum sendingum sem vindurinn klófesti og feykti ýmist í innkast aftur fyrir endamörk á meðan Þór/KA spilaði afskaplega vel meðfram jörðinni.
Fyrsta mark leiksins kom strax á sjöundu mínútu þegar Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir lék upp að endamörkum og sendi fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni á Söndru Maríu Jessen. Arna Eiríksdóttir, varnarmaður FH komst fyrir skot Söndru en markahrókurinn fékk boltann aftur og brást ekki bogalistin í annari tilraun. 1:0 fyrir norðankonur.
Áfram hélt Þór/KA og tuttugu mínútum síðar var Sandra María aftur á ferðinni þegar hún skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið sem hin unga Herdís Halla átti ekki möguleika á að verja. Lara Ivanusa átti góða stungusendingu á Söndru sem afgreiddi færið af fagmennsku og kom sínu liði í 2:0. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir skaut í þverslá á fertugustu mínútu en staðan var 2:0 í hálfleik, sanngjörn forysta Þórs/KA.
FH byrjaði seinni hálfleikinn betur og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir átti skot í stöngina af 25 metra færi strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks. Skotið leit ekki hættulega út en Harpa Jóhannsdóttir,markmaður Þórs/KA virtist misreikna boltann, sem small í utanverðri stönginni.
FH-ingar virtust stálheppnir eftir sjötíu mínútna leik þegar Arna Eiríksdóttir virtist toga Lara Ivanusa niður í teig FH-inga og hefði það þýtt rautt spjald og víti en Atli Haukur Arnarsson, góður dómari leiksins, sá ekki ástæðu til að flauta.Breukelen Woodard komst ein gegn Hörpu í næstu sókn en skaut framhjá markinu eftir góðan undirbúning Rammie Noel.
En Sandra María var ekki búin að segja sitt síðasta. Hún skoraði skallamark eftir glæsilega fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur og bætti við fjórða marki sínu og Þórs/KA þegar hún komst inn í slaka sendingu Andreu Ránar og innsiglaði góðan sigur norðankvenna.
Þór/KA tekur á móti Þrótti í næstu umferð en FH sækir Breiðablik heim í Kópavoginn.