Fyrsta markið gerði útslagið á Laugardalsvelli

Valur er bikarmeistari kvenna í knattspyrnu í 15. sinn eftir sigur gegn Breiðabliki í úrslitaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli í kvöld.

Leiknum lauk með sigri Vals, 2:1, en þær Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu mörk Valskvenna í leiknum í síðari hálfleik.

Leikurinn fór rólega af stað og spennustigið var hátt hjá báðum liðum. Katrín Ásbjörnsdóttir  fékk fyrsta færi leiksins eftir fyrirgjöf frá Birta Georgsdóttur frá hægri en Fanney náði að lokum að handsama boltann eftir vandræðagang í teignum.

Valskonur fagna fyrsta marki leiksins.
Valskonur fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

Karitas Tómasdóttir fékk gott færi til þess að koma Blikum yfir á 29. mínútu en skot hennar úr vítateig Vals, fór himinhátt yfir markið.

Á 33. mínútu fékk Andrea Rut Bjarnadóttir besta færi fyrri hálfleiks en Ásta Eir Árnadóttir átti þá sendingu út úr vörn Blika, beint í fæturna á Birtu Georgsdóttur. Hún tók frábærlega á móti boltanum, keyrði í átt að marki Vals, og átti svo frábæra sendingu inn fyrir vörnina. Andrea Rut tók boltann með sér, en þrengdi færið óþarflega mikið fyrir sjálfa sig, og skotið endaði í hliðarnetinu.

Dauðafæri eftir hornspyrnu

Tveimur mínútum síðar átti Fanndís Friðriksdóttir frábæra sendingu frá hægri,  hinu megin á vellinum. Jasmín Erla Ingadóttir átti viðstöðulaust skot að marki Blika en Telma Ívarsdóttir var mjög vel staðsett í markinu og varði mjög vel.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skorar fyrsta mark leiksins.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skorar fyrsta mark leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Katrín Ásbjörnsdóttir dauðafæri til þess að koma Blikum yfir en skot hennar, eftir hornspyrnu frá hægri, fór hátt yfir úr markteig Vals, og staðan því markalaus í hálfleik.

Jasmín Erla Ingadóttir fékk fyrsta færi síðari hálfleiks þegar boltinn datt fyrir hana í vítateig Breiðabliks, á 54. mínútu, en skot hennar, utarlega í teignum, fór framhjá.

Birta Georgsdóttir fékk frábært tækifæri til þess að koma Blikum yfirá 61. mínútu eftir hornspyrnu frá vinstri. Boltinn datt fyrir Birtu í teignum, og hún átti skot með bakið í markið. Skotið fór undir Fanneyju en Anna Rakel Pétursdóttir var frábærlega staðsett og bjargaði á marklínu.

Valskonan Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir í baráttunni við Blikana Barbáru Sól …
Valskonan Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir í baráttunni við Blikana Barbáru Sól Gísladóttur og Karitas Tómasdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Drógu tennurnar úr Blikum

Blikar fengu þetta í bakið því fjórum mínútum síðar kom Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir Valskonum yfir. Valskonur fengu hornspyrnu hægra megin og Blikum gekk illa að koma boltanum frá. Hailey Whitaker átti fast skot að marki, utarlega í teignum, og Guðrún Elísabet setti tánna í boltann, stýrði honum yfir línuna og staðan orðin 1:0.

Valskonur fengu mikinn vind í seglin við þetta og sóttu nánast linnulaust næstu mínúturnar. Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir, Jasmín Erla Ingadóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir áttu allar ágætis skot að marki Blika en annaðhvort var Telma vandanum vaxinn eða boltinn fór yfir markið.

Valskonur gerðu svo út um leikinn á 81. mínútu eftir hraða sókn. Fanndís Friðriksdóttir sendi þá boltann á Katie Cousins sem gerði frábærlega í að hrista tvo varnarmenn Blika af sér. Hún lagði boltann svo snyrtilega á Jasmínu Erlu Ingadóttur sem var ein á auðum sjó, við vítateigslínuna vinstra megin. Jasmín átti viðstöðulaust og hnitmiðað skot með vinstri fæti og boltinn söng í hægra horninu.

Barátta í vítateignum í kvöld.
Barátta í vítateignum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir annað mark Valskvenna fjaraði leikurinn svo gott sem út en Blikum tókst þó að minna muninn í uppbótartíma þegar Karitas Tómasdóttir skoraði eftir hornspyrnu frá hægri með föstu skoti úr teignum.

Þrátt fyrir að Blikar hafi fengið betri færi til þess að byrja með hélt Valsliðið sínum takti og leikplani allan tímann og þær drógu að endingu allar tennurnar úr Kópavogsliðinu með mjög heilsteyptri frammistöðu.

Valur 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu Blikar hreinsa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert