Erum á undan stigamarkmiði okkar

John Andrews þjálfari Víkings.
John Andrews þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur þurfti að þola 4:0 tap gegn Breiðablik í Bestu deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld. Á sunnudaginn mættust liðin einnig og endaði sá leikur með sömu úrslitum. John Andrews, þjálfari Víkinga, kom í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Ég er mjög stoltur, mun betri frammistaða frá því á sunnudaginn. Við vorum mun nær þeim í gæðum, náðum nokkrum góðum tæklingum og settum pressu á þær. Við náðum ekki að setja neina pressu á þær síðasta sunnudag,“ sagði Andrews.

Fannst þér jákvæðar breytingar í frammistöðu liðsins frá leiknum á sunnudaginn í dag?

„Við sáum ekki margt jákvætt á sunnudaginn, það er málið. Margir þjálfara vinir mínir sem horfa á leikina okkar og horfðu á leikinn á sunndaginn sögðu að þær voru óþekkjanlegar. Nú hef ég fengið nokkur skilaboð frá þeim og þeir sögðu að hjartað væri komið aftur og eldmóðurinn var kominn aftur. Nokkur klaufaleg mistök í mörkunum og það kostar í þessum gæðaflokki,“ sagði Andrews.

Aðeins fjórir leikir eru eftir af tímabilinu og er Andrews brattur fyrir framhaldinu.

„Okkur líður frábærlega. Við erum sjúklega stolt af leikmönnunum. Við erum fimm til sex stigum á undan stigamarkmiði okkar fyrir tímabilið. Þannig maður veist aldrei, við gætum líka farið fram úr væntingum í þessum efri hluta,“ sagði Andrews að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert