Nýttum eina færið okkar

Fyrirliðarnir Berglind Rós Ágústsdóttir hjá Val og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir …
Fyrirliðarnir Berglind Rós Ágústsdóttir hjá Val og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir hjá Þrótti í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við spiluðum ótrúlega góðan varnarleik en áttum ekki mörg færi en nýttum samt okkar eina,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar eftir 1:1 jafntefli við Val þegar liðin áttust við í 1. umferð efri hluta keppninnar í efstu deild kvenna í fótbolta. 

„Við vissum að Valur væri með svakalega gott lið og að þetta yrði hörkuleikur en þægilegt fyrir okkur að vera svolítið án pressu, margir ekki búist við miklu af okkur en við nýttum okkur það aðeins. Við vitum að Valur er sókndjarft lið sem erfitt er að verjast.“

Fram að leiknum í dag hafði Valur unnið alla þrjá leiki sína við Þrótt í sumar, alla með einu marki og í einum þurfti tvö sjálfsmörk Þróttar til að tryggja sigur Vals.  Fyrirliðinn sagði lið því alveg eiga möguleika.  „Við höfum spilað marga leiki við Val í sumar og vildum fá einhver stig núna. Hinir leikirnir hafa verið aðeins jafnari en samt höfum við tapað þeim leikjum. Við skoðuðum leikina við Val í sumar og þeir voru oft jafnir.  Við sóttum meira í þeim leikjum en það gerðist ekki í þessum leik svo það var gott að ná í stig,“ bætti Álfhildur Rósa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert