Okkur var sem betur fer ekki refsað

Valskonur höfðu tögl og hagldir gegn Þrótti í kvöld en …
Valskonur höfðu tögl og hagldir gegn Þrótti í kvöld en þurftu samt að sætta sig við jafntefli. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn rosalega erfiður þegar Valur sótti mikið  á okkur en mér fannst við stundum færa þeim boltann full auðveldlega og sem betur fer var okkur ekki refsað fyrir það,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Þróttar eftir 1:1 jafntefli gegn Val að Hlíðarenda í kvöld þegar leikið var í 19. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.

„Við ræddum í hálfleik að gefa aðeins oftar á samherja en andstæðing og það gekk ögn betur í seinni hálfleik.  Svo gerðist eitt sem við höfum talað mikið um og vinna með – að í köflum í leikjum, sem erum jafnvel ekki ofan á þá láta þá kafla ekki verða kafla sem eyðileggja möguleika okkar.  Mér fannst liðið gera það mjög vel.“

Liðin höfðu þrisvar mæst í sumar og Valur unnið alla leikina en þjálfarinn gat notað atriði úr síðasta leik Þróttar til að láta liðið halda einbeitingu allan leikinn. „Ég þurfti ekki að benda leikmönnum á að hvað allir leikirnir við Val í sumar hafa verið hörkuleikir og sýndi þeim líka síðustu mínútuna í síðasta leik þegar þær skora.  Þar sýndi að þetta með einbeitinguna skiptir máli,“ bætti þjálfarinn við en sem kunnugt er skoraði Þróttur sigurmark gegn Stjörnunni á lokamínútu í síðasta leik deildarinnar og það mark dugði Þrótti til að spila í efri hlutanum á meðan Stjarnan spilar í neðri hluta deildarinnar.

Skrýtið að enda svona leik með jafntefli

Pétur Pétursson þjálfari Valskvenna var sáttur við sitt lið en ekki úrslitin.  „Mér fannst frábær leikur hjá okkur að öllu leiti og skrýtið að þetta hafi endað eitt-eitt en svona fór það.  Við pressuðum Þrótt í allan leikinn, í níutíu mínútur og það var okkar leikplan en Þróttur fékk þrjár hornspyrnur og skoraði  úr einni af þeim,“ sagði Pétur eftir leikinn. „Það er alltaf dýrt að tapa stigum en eins og staðan er núna þá bara förum við næsta leik og það er ennþá allt opið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert