Gæti verið basl á mönnum í fyrramálið

Steinþór segir leiðsfélaga sínum Rodri að róa sig í dag.
Steinþór segir leiðsfélaga sínum Rodri að róa sig í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Steinþór Már Auðunsson markvörður KA var í gríðarlega góðu skapi er hann ræddi við mbl.is í dag, enda nýorðinn bikarmeistari með uppeldisfélaginu eftir sigur á Víkingi, 2:0, á Laugardalsvelli.

„Ég veit ekki hvernig mér líður. Þetta er eiginlega ólýsanlegt. Það tekur nokkra daga að átta sig almennilega á þessu,“ sagði Steinþór sigurreifur í leikslok.

Víkingar fengu eitthvað af færum en Steinþór og vörnin fyrir framan hann áttu afbragðsleik.

„Mér leið ágætlega. Þeir fengu eitthvað af færum en mér leið vel. Við vorum búnir að skoða þá vel og við vissum hvað við vildum gera.

Steinþór fyrir leik.
Steinþór fyrir leik. mbl.is/Ólafur Árdal

Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn betur en þeir. Við vorum að sækja en svo snerist það við í lokin þegar við vildum halda fengnum hlut,“ sagði hann.

Dagur Ingi Valsson skoraði seinna mark Víkings í uppbótartíma og brutust út mikil fagnaðarlæti í kjölfarið. KA mátti þola tap fyrir Víkingi í sama leik fyrir ári síðan.

Steinþór Már Auðunsson í leik með Völsungi.
Steinþór Már Auðunsson í leik með Völsungi. Skapti Hallgrímsson

„Það var tryllt og ég veit ekki hvað ég gerði við mig. Ég held ég hafi farið að fagna með áhorfendum á meðan leikmenn fóru út í horn að fagna. Það er fínt að hefna og taka einn bikarmeistaratitil í leiðinni.“

Steinþór á mun fleiri leiki í 2. deild en í úrvalsdeild en hann lék lengi með Völsungi, Dalvík/Reyni og Magna frá Grenivík. Hann gekk síðan aftur í raðir KA árið 2021.

En átti hann von á að vera aðalmarkvörður í bikarmeistaratitli KA einhvern daginn, þegar hann var í þriðju efstu deild?

„Ekki nema ég væri vel ruglaður. Mitt eina markmið þegar ég kom í KA árið 2021 var að ná einum leik með uppeldisfélaginu í efstu deild. Svo stöndum við hér og erum bikarmeistarar. Það er óraunverulegt.“

KA-menn ætla að sjálfsögðu að fagna stórum áfanga vel og innilega. „Ég ætla rétt að vona að við fáum frí á æfingu. Það gæti verið smá basl á mönnum í fyrramálið,“ sagði Steinþór glaður í bragði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert