Mun hlýja okkur um hjartarætur um ókomin ár

Hallgrímur Jónasson kátur með bikarinn í leikslok.
Hallgrímur Jónasson kátur með bikarinn í leikslok. mbl.is/Ólafur Árdal

„Mér líður ótrúlega vel,“ sagði kampakátur Hallgrímur Jónasson, þjálfari karlaliðs KA í fótbolta, eftir að liðið varð bikarmeistari með sigri á Víkingi á Laugardalsvelli í dag, 2:0.

„Maður er hálf meyr og það er ótrúlega góð tilfinning að ná að klára þetta. Það er æðisleg tilfinning að ná að klára þetta núna þegar við erum hérna í annað skiptið í röð. Þetta mun hlýja okkur um hjartarætur um ókomin ár,“ sagði hann og hélt áfram:

„Mér fannst við spila góðan leik á móti frábæru liði. Við áttum skilið að vinna. Það er gaman að sjá að við vorum andlega tilbúnir í að vinna bikarúrslit.“

KA var 1:0 yfir stóran hluta leiks og reyndu Víkingar hvað þeir gátu til að jafna metin. KA innsiglaði svo sigurinn með marki Dags Inga Valssonar í uppbótartíma.

„Mér leið ekkert frábærlega þegar þeir voru að sækja í lokin. Mér fannst við vera að gera allt rétt og vel en Víkingarnir eru með svo mikil gæði. Að vinna 2:0 í dag er æðislegt. Það er gaman að við unnum besta liðið á Íslandi. Þráin að vinna bikarinn skipti samt meira máli en hvað liði við mættum.“

KA hafði tapað öllum fjórum bikarúrslitaleikjum sínum fram að leiknum í dag. „Strákarnir eru að skrifa söguna. Þeir voru í liðinu sem vann loksins bikarinn. Allir sem standa á bak við þetta, fólkið á bak við tjöldin sem styður KA, þetta er fyrir okkur öll,“ sagði Hallgrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert