KFA mætir Selfossi á Laugardalsvelli

Bjarni Jóhannsson þjálfar Selfyssinga sem unnu 2. deildina í ár …
Bjarni Jóhannsson þjálfar Selfyssinga sem unnu 2. deildina í ár og leika til úrslita í neðrideildabikarnum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnufélag Austfjarða og Selfoss mætast í úrslitaleiknum í neðrideildabikar karla í fótbolta á Laugardalsvellinum næsta föstudagskvöld, 27. september.

KFA og Selfoss, sem léku bæði í 2. deild í ár, unnu undanúrslitaleiki keppninnar í gær þegar KFA vann 4. deildarmeistara Tindastóls, 2:1, á Reyðarfirði og Selfoss vann heimasigur á 3. deildarliði Árbæjar, 4:1.

Gonzalo Zamorano skoraði tvö marka Selfyssinga gegn Árbæ og hefur þar með skorað 25 mörk í deild og bikarkeppnum fyrir lið Selfoss sem vann öruggan sigur í 2. deildinni. Alexander Clive Vokes og Aron Fannar Birgisson skoruðu hin tvö mörkin en Ragnar Páll Sigurðsson gerði mark Árbæinga og minnkaði þá muninn í 3:1 skömmu fyrir leikslok.

Tindastóll komst yfir í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði þegar þjálfari Skagfirðinga, Dominic Furness, skoraði strax á 4. mínútu.

Eiður Orri Ragnarsson jafnaði fyrir Austfirðinga sex mínútum síðar og Marteinn Már Sverrisson skoraði sigurmark þeirra um miðjan síðari hálfleik.

Bikarkeppnin fer fram í annað skipti í ár en þar taka þátt lið úr 2., 3. og 4. deild. Víðir úr Garði vann KFG úr Garðabæ í fyrsta úrslitaleik hennar á Laugardalsvellinum síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert