Meira og minna allt

Pétur Pétursson í leiknum í dag.
Pétur Pétursson í leiknum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Valskonur héldu lífi í titilbaráttu sinni með sigri á FH í efri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Valskonur unnu 2:0 í helst til tíðindalitlum leik. 

Pétur Pétursson þjálfari Valskvenna var að vonum ánægður með stigin þrjú þrátt fyrir að hann hafi ekki verið ánægður með leik liðsins í heild. Við ræddum við Pétur strax eftir leik.

Titilvonin lifir hjá Val eftir þennan sigur. Hvað skóp sigur Valskvenna í dag?

„Mér fannst þetta ekki þægilegur sigur. Þetta var mjög erfitt og rosalega ólíkt Valsliðinu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ég vill bara hrósa liði FH fyrir frábæra spilamennsku í dag.“

Þessi leikur var helst til daufur og ekki góður ásýndar en Valskonur gerðu það sem þurfti til að klára leikinn ekki satt?

„Jú við gerðum það og fengum alveg færi til að gera fleiri mörk. En sem betur fer þá náðum við að klára leikinn.“

Næsti leikur er eftir tæpa viku gegn Víkingum á Víkingsvelli. Þarftu að gera stórar breytingar fyrir þann leik til að ná fram sigri?

„Nei en ég vona að við mætum ekki í þann leik eins og við gerðum í fyrri hálfleik í dag. VIð bara reynum að halda okkar siglingu og vinna þann leik.“

Leikurinn gegn Víkingum verður næst síðasti leikurinn áður en þið spilið gegn Breiðabliki. Þið ætlið ykkur væntanlega að komast í þá stöðu að spila hreinan úrslitaleik um titilinn gegn þeim í lokaumferðinni ekki satt?

„Jú en fyrst þurfum við að klára Víkingsleikinn. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Vonandi verður lokaleikurinn bara hreinn úrslitaleikur.“

Eitthvað sem hefði mátt fara betur í leik Valskvenna í dag?

„Meira og minna allt,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert