Rúnar eftir tap: Einstefna í 90 mínútur

Ólafur Íshólm Ólafsson í marki Fram kýlir boltann fram í …
Ólafur Íshólm Ólafsson í marki Fram kýlir boltann fram í sókn Fylkismanna. mbl.is/Ólafur Árdal

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis var ánægður með spilamennsku síns liðs þrátt fyrir tap gegn Fram, 2:0, í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í Úlfarsárdal í kvöld.

„Ég upplifði þennan leik þannig að þetta var einstefna í 90 mínútur og það er ekki oft sem við getum sagt það. Fyrsta markið kemur ekki upp úr neinu og svo skora þeir annað markið eftir mistök hjá Birki.

Það var dýrt að lenda 2:0 undir þegar við vorum búnir að vera með boltann nánast allan tímann. Það var mikill kraftur í okkur og ég er ánægður með margt í okkar leik. Við vorum ótrúlega hugaðir og pressuðum þá út um allan völl,“ sagði Rúnar og hélt áfram:

„Það var góður bragur á okkur í þessum leik. Við fengum urmul af hornspyrnum og aukaspyrnum. Ég man ekki eftir færi hjá Fram fyrir utan mörkin. Það er erfitt að vera með algjöra yfirburði en tapa 2:0. Það er erfitt að segja það, en það er staðreynd.“

Fylkir er þremur stigum frá öruggu sæti þegar liðið á aðeins fjóra leiki eftir.

„Staðan er erfið og við vitum það allir. Við þurfum að fá stig. Við verðum að þora að sækja sigur í þessum leikjum. Við reyndum það í kvöld en svo fáum við fáránleg mörk á okkur.

Andinn og spilamennskan var í góðu lagi, en við fengum núll stig. Við eigum eftir að mæta liðunum í kringum okkur og þetta er enn opið,“ sagði hann.

Þrátt fyrir erfitt tímabil til þessa sagði Rúnar stemninguna í hópnum hjá Fylki enn vera góða.

„Fylkir er þannig félag að það er góð stemning innan leikmannahópsins. Það er hundleiðinlegt að tapa og það venst ekkert. Við höfum samt trú á að við getum bjargað okkur. Ef við höfum ekki trú á því hefur enginn trú á því,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert