Staðan er grafalvarleg

Gunnar Jónas Hauksson úr Vestra og Ástbjörn Þórðarson hjá KR …
Gunnar Jónas Hauksson úr Vestra og Ástbjörn Þórðarson hjá KR eigast við í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

„Við vorum mjög svekktir,“ sagði Atli Sigurjónsson leikmaður KR í samtali við mbl.is eftir jafntefli, 2:2, gegn Vestra í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbæ í dag.

KR-ingar komust í tvígang yfir en í bæði skiptin jafnaði Versti og skiptu liðin því með sér stigunum.

„Það var lélegt af okkur að klára þetta ekki. Það er svekkjandi að taka bara eitt stig í dag. Við þurftum að verjast betur. Tvö mörk eiga að duga en við hefðum líka getað gert betur þegar við vorum með boltann í sókninni í seinni hálfleik,“ sagði hann.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Atli var sáttur með spilamennskuna stóran hluta leiks, en svekktur að hún hafi ekki nægt til sigurs í fallbaráttuslag.

„Þetta var fínt á stórum köflum en svo voru þetta augnablik sem klikkuðu hjá okkur. Kannski var það einbeitingarleysi og kannski vantaði gæðin á ákveðnum augnablikum. Eitt stig er ekki gott.“

KR er enn í mikilli fallbaráttu þegar liðið á fjóra leiki eftir. Liðið er aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Staðan er grafalvarleg og það er mjög leiðinlegt að vera í þessari stöðu. Við verðum að grafa djúpt í KR-hjartað og rífa okkur í gang fyrir þessa fjóra leiki og bjarga okkur úr þessari stöðu. Við erum bjartsýnir og erum með sjálfstraust til að klára þessa leiki,“ sagði Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert