Valskonur enn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn

Nadía Atladóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir að fagna öðru marki …
Nadía Atladóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir að fagna öðru marki Vals í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Valur og FH áttust við í efri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag og lauk leiknum með sigri Valskvenna 2:0. Með sigrinum eru Valskonur ennþá einu stigi á eftir toppliði Breiðabliks sem vann einnig sinn leik í dag. Liðin heyja því enn baráttu um Íslandsmeistaratitilinn en þau mætast einmitt í lokaumferð mótsins og þá gæti orðið um hreinan úrslitaleik að ræða.  

Fyrri hálfleikur liðanna var ansi tíðindalítill og rólegur. FH konur áttu fyrstu tvö skot leiksins. Fyrra skotið fór framhjá en hitt varði Fanney Inga Birkisdóttir.  

Á 24. mínútu kom eina mark fyrri hálfleiks. Þar var að verki Nadía Atladóttir eftir frábæran undirbúning og sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur. Staðan 1:0 fyrir Val.  

Eftir þetta róaðist leikurinn aftur en Valskonur voru þó miklu meira með boltann og gerðu sig líklegar til að bæta við þó það hafi ekki tekist. 

Staðan í hálfleik 1:0 fyrir Val.  

Valskonur gerðu skiptingu i hálfleik þegar Elísa Viðarsdóttir kom inn á í stað Þórdísar Hrannar Sigfúsdóttur. Annað markvert gerðist ekki í seinni hálfleik fyrr en á 68. mínútu þegar Nadía Atladóttir skoraði sitt annað mark og annað mark Valskvenna eftir að boltinn rataði til hennar í teignum. Staðan 2:0 fyrir Val. 

Þegar komið var í uppbótartíma leiksins kom Aníta Björg Matthíasdóttir inn á í liði Vals. Var hún að leika sinn fyrsta meistaraflokksleik en hún leikur með 3. flokki Vals og er fædd árið 2009. 

Lítið annað gerðist í seinni hálfleik sem vert er að taka fram í þessari grein og lauk leiknum með 2:0 sigri Valskvenna sem eru eins og fyrr segir í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Breiðablik. FH er áfram í 6. sætinu.  

Næstu leikir liðanna eru á laugardaginn þegar FH fer á Kópavogsvöll og mætir Breiðablik á meðan Valskonur fara á Víkingsvöll. Er það næstsíðasta umferðin í deildinni. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 2:0 FH opna loka
90. mín. Ísabella Sara Tryggvadóttir (Valur) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert