Blikar á toppinn með sigri á ÍA

Steinar Þorsteinsson og Viktor Örn Margeirsson á Kópavogsvellinum í kvöld.
Steinar Þorsteinsson og Viktor Örn Margeirsson á Kópavogsvellinum í kvöld. Eyþór Árnason

Breiðablik hafði betur gegn ÍA, 2:0, í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði fyrir Breiðablik auk þess  sem Johannes Björn Vall, leikmaður ÍA, skoraði sjálfsmark.

Með sigrinum fór Breiðablik á topp deildarinnar þar sem liðið er nú með 52 stig, þremur stigum meira en Víkingur úr Reykjavík, sem á leik til góða gegn FH á miðvikudag.

ÍA fer niður í fimmta sæti þar sem liðið er enn með 34 stig.

Fyrri hálfleikur var ansi tíðindalítill. Helst var það Ísak Snær Þorvaldsson sem fékk prýðis færi fyrir Breiðablik á 11. mínútu þegar skot hans úr vítateignum í hættulegri stöðu eftir sendingu Viktors Karls Einarssonar fór í Hilmar Elís Hilmarsson, miðvörð ÍA.

Besta færi Skagamanna og besta færi fyrri hálfleiks fékk Hinrik Harðarson eftir rúmlega hálftíma leik. Rúnar Már Sigurjónsson átti þá góða fyrirgjöf vinstra megin við vítateiginn, fann Hinrik einan á fjærstönginni en hann þurfti að teygja sig í boltann og skallinn fór framhjá nærstönginni.

Á 40. mínútu átti Jón Gísli Eyland Gíslason stórhættulega fyrirgjöf af hægri kantinum með jörðinni, Daniel Obbekjær í vörn Breiðabliks og Viktor Jónsson, fyrirliði ÍA, áttu í harðri baráttu um boltann við markteiginn og hafði Daninn að lokum betur áður en Viktor Örn Margeirsson hreinsaði frá.

Þar með er það sem gerðist markvert í fyrri hálfleik upptalið. ÍA var hættulegri aðilinn undir lok hálfleiksins þegar gestunum tókst nokkrum sinnum að opna vörn Breiðabliks en í þau skipti tókst heimamönnum að bjarga áður en meiri hætta skapaðist.

Allt aðrir Blikar í síðari hálfleik

Í upphafi síðari hálfleiks gerði Ísak Snær sig aftur líklegan fyrir Breiðablik tekur hann tók skot af markteig en aftur var varnarmaður ÍA, Erik Sandberg að þessu sinni, alveg ofan í honum og komst fyrir skotið þaðan sem boltinn fór út í hornspyrnu.

Allt annað var að sjá til Blika í síðari hálfleiknum og náðu þeir forystunni á 55. mínútu. Davíð Ingvarsson átti þá glæsilega fyrirgjöf af vinstri kantinum sem fór framhjá hverjum leikmanninum á fætur öðrum, Aron Bjarnason og Johannes Björn Vall börðust um boltann við miðjan markteiginn sem endaði með því að boltinn fór af Val log í netið, sjálfsmark.

Í kjölfarið gerði Breiðablik orrahríð að marki ÍA. Fyrst átti Arnór Gauti Jónsson hættulegt skot fyrir utan vítateig sem fór rétt yfir markið og stuttu seinna var Andri Rafn Yeoman kominn í góða stöðu hægra megin í markteignum en skaut einnig rétt yfir.

Mínútu síðar, á 58. mínútu, kom Ísak Snær boltanum á Höskuld sem náði föstu skoti úr vítateignum, það fór í varnarmann þaðan sem boltinn barst til Davíðs vinstra  megin í teignum en skot hans fór framhjá nærstönginni.

Glæsimark Ísaks Snæs

Fimm mínútum síðar átti Ísak Snær hörkuskot úr D-boganum sem fór af varnarmanni og rétt framhjá markinu.

Áfram héldu Blikar að þjarma að Skagamönnum og slapp Davíð í gegn á 68. mínútu en skot hans vinstra megin úr teignum var la fór framhjá markinu.

Davíð slapp svo aftur einn í gegn stuttu síðar, á 72. mínútu eftir laglega sendingu Höskulds, fór framhjá Árna Marinó Einarssyni í marki ÍA en færið orðið þröngt. Davíð lék með boltann að endalínu, reyndi að senda boltann út á samherja en boltinn fór í varnarmann ÍA.

Fjórum mínútum síðar vildu Blikar fá dæmda vítaspyrnu þegar Höskuldur fór niður í vítateignum en ekkert var dæmt. Virtist brotið á honum utan teigs áður en Höskuldur hélt áfram með boltann en fengu heimamenn samt ekki dæmda aukaspyrnu.

Á 78. mínútu fékk Vall tækifæri til þess að bæta upp fyrir sjálfsmark sitt. Eftir góða sókn barst boltinn til Svíans sem tók skot vinstra megin úr vítateignum, ætlaði að lauma boltanum í fjærhornið en Andri Rafn komst fyrir skotið.

Þremur mínútum fyrir leikslok reyndi varamaðurinn Kristófer Ingi Kristinsson hörkuskot fyrir utan vítateig en Árni Marinó reyndist vandanum vaxinn í markinu og greip boltann.

Á sjöttu mínútu uppbótartíma slapp Ísak Snær einn í gegn, lét skotið ríða af við vítateigslínuna þar sem boltinn fór í samskeytin og í netið, stórglæsilegt mark og tveggja marka sigur innsiglaður.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Breiðablik 2:0 ÍA opna loka
90. mín. Jón Gísli Eyland Gíslason (ÍA) á skot sem er varið Bjartsýnisskot langt fyrir utan teig, endar í varnarmanni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert