„Úr verður hörkuskemmtilegur leikur“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var svekktur eftir 2:0-tap liðsins fyrir Breiðabliki í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld en var þó ánægður með framlag sinna manna.

„Þetta var hörkuleikur og ég er svekktur að tapa honum. Mér fannst menn virkilega leggja allt í þennan leik og gera það virkilega vel. Blikarnir brjóta ísinn þarna í seinni hálfleik, skora fyrsta markið þegar það var aðeins búið að riðlast á miðjunni hjá okkur.

Haukur [Andri Haraldsson] var utan vallar og svo nýkominn inn á og þeir nýta sér það og skora. Eftir það fannst mér leikurinn vera svolítið fram og til baka. Það vantaði herslumuninn til þess að reka endahnútinn á það til þess að koma okkur aftur inn í leikinn.

Síðan ná Blikarnir að klára þetta undir lokin þegar við gerðum örvæntingarfulla tilraun til þess að fjölga í sókninni og fækka í vörninni. Þetta var verðskuldaður sigur Blika, sem eru með frábært lið. Þeir gerðu þetta bara virkilega vel,“ sagði Jón Þór við mbl.is eftir leik.

Leikurinn opnaðist við markið

Eftir að Breiðablik náði forystunni á 55. mínútu fylgdi í kjölfarið nokkur fjöldi færa hjá heimamönnum.

Var það Skagamönnum svona mikið áfall að fá á sig þetta mark?

„Nei, alls ekki. Eftir að þeir komast yfir er leikurinn svolítið fram og til baka, fer í svolítinn sviptingaham þar sem eru skyndisóknir á báða bóga. Þá opnaðist leikurinn.

Það var búið að vera lítið af færum fyrstu 60 mínúturnar en úr verður bara hörkuskemmtilegur leikur. Því miður datt það ekki okkar megin. Við fengum nokkur frábær upphlaup þar sem vantaði bara herslumuninn að ná að klára þau,“ sagði hann.

ÍA er eftir tapið í fimmta sæti með 34 stig, fimm stigum á eftir Val í þriðja sæti, síðasta Evrópusætinu.

„Það er bara áfram fulla ferð og við sjáum hverju það skilar okkur. Ég er bjartsýnn á framhaldið miðað við framlagið sem ég fékk frá mínu liði í dag. Þá hef ég engar áhyggjur af því,“ sagði Jón Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert