Markaregn á KA-vellinum

Leikmenn KA fagna marki í dag.
Leikmenn KA fagna marki í dag. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Bikarmeistarar KA tóku á móti HK í neðri hluta Bestu-deildar karla í fótbolta í dag. Úr varð spennandi og sveiflukenndur leikur sem endaði 3:3.

KA hefur 28 stig í áttunda sæti deildarinnar en HK er með 21 stig í tíunda sætinu þegar fjórar umferðir eru eftir og er tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Leikurinn hófst kl. 16:15, sem verður að teljast óvenjulegur leiktími á vikum degi. Var því töluvert spennandi að sjá hver mætingin yrði og hvort bikarmeistaratitill KA myndi trekkja á leikinn. Einnig yrði athyglisvert að sjá hvernig KA-menn myndu mæta til leiks.

Leikurinn byrjaði heldur rólega og liðin þreifuðu fyrir sér. KA skoraði fyrsta markið um miðjan hálfleikinn. Daníel Hafsteinsson átti þrumuskot sem Christoffer Petersen varði í stöngina en Dagur Ingi Valsson fylgdi á eftir og afgreiddi boltann í markið, 1:0.

Eftir markið var leikurinn meira og minna eign HK-inga. Þeir blésu til stórsóknar og linntu ekki látum fyrr en þeir voru búnir að skora tvisvar. Miðjan hjá KA var eins og gatasigti og komust gestirnir ítrekað í góðar stöður við vítateig KA. Dagur Örn Fjeldsted jafnaði leikinn með góðu skoti upp í samskeytin, 1:1, eftir hraða sókn og sendingu Birkis Breka.

Birnir Breki Burknason komst síðan í dauðafæri en Steinþór Már Auðunsson varði frá honum. Steinþór Már hafði nóg að gera en hann réði ekki við skot Arnþórs Ara Atlasonar úr vítateignum eftir gott spil við Birni Breka skömmu fyrir hálfleiksflaut, 2:1 fyrir HK.

Var þó ekki allt búið í fyrri hálfleik því rautt spjald fór á loft í blálok hans. Atli Hrafn Andrason fékk reisupassann, eftir sitt annað gula spjald, og þurfti HK því að spila seinni hálfleikinn manni færri.

KA jafnaði leikinn snemma í seinni hálfleik. Mikael Breki Þórðarson smurði boltann upp í samskeytin eftir hraða sókn, 2:2.

Í framhaldinu sótti KA stíft en HK-ingar vörðust vel. Gestirnir fengu svo algjört dauðafæri þegar Birnir Breki var allt í einu einn gegn Steinþóri en Steinþór var pollrólegur og varði skot Birnis.

Ásgeir Sigurgeirsson kom KA svo yfir með skalla eftir hornspyrnu frá Harley Willard, 3:2, og þurfti HK að leggja allt í sölurnar á lokakaflanum.

HK fékk færin sín og jafnaði sanngjarnt á lokamínútu venjulegs leiktíma. Atli Arnarson skoraði með skalla eftir aukaspyrnu Ívars Arnar Jónssonar. Lauk leiknum með 3:3 jafntefli.

Dagur Örn Fjeldsted fagnar glæsimarki sínu í dag.
Dagur Örn Fjeldsted fagnar glæsimarki sínu í dag. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 3:3 HK opna loka
90. mín. Atli Arnarson (HK) skorar 3:3. Skalli eftir aukaspyrnu. Hann var dauðafrír á markteignum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert