„Við þurfum algjörlega að halda haus“

Ásgeir Sigurgeirsson í þann mund að skora mark sitt í …
Ásgeir Sigurgeirsson í þann mund að skora mark sitt í dag. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Fyrirliði bikarmeistara KA var í eldlínunni í dag þegar KA og HK gerðu 3:3-jafntefli í neðri hluta Bestu-deildarinnar í fótbolta. Ásgeir Sigurgeirsson lyfti bikarnum á laugardag og skoraði mark í dag, sem virtist ætla að vera sigurmarkið í leiknum. HK jafnaði hins vegar á lokamínútunni og krækti sér í stig þrátt fyrir að hafa spilað allan seinni hálfleikinn manni færri.

Ásgeir kom í stutt viðtal eftir leik.

„Ég er alls ekki sáttur við þessi úrslit. Þetta var bara leikur sem við áttum að klára, einum manni fleiri í heilan hálfleik og komnir 3:2 yfir. En svona er þetta og við verðum að lifa með þessu.“

Þið voruð frábærir á Laugardalsvellinum á laugardaginn en ekki alveg jafn frábærir í dag en áttuð ágætis kafla í leiknum. Steinþór þurfti að verja full mikið og hreinsa upp eftir ykkur hina.

„Já einmitt. Mér fannst við alveg byrja leikinn mjög vel, svona fyrstu 25 mínúturnar. Mér fannst þetta vera að spilast vel fyrir okkur. Svo bara á tíu mínútum skoraði HK tvö mörk. Mér fannst við svo gera ágætlega í seinni hálfleiknum. Að fá svo á sig mark í lokin var bara galið. Við áttum að klára þetta.“

Það eru fjórir leikir eftir og næsti leikur strax á sunnudag. Fyrstu fjórir leikir ykkar í þessum neðri hluta er gegn liðun sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Það verður tekist á.

„Við viljum auðvitað vinna alla leikina sem eftir eru og getum svarað fyrir klúðrið í dag strax á sunnudaginn. Við viljum enda tímabilið almennilega og með sæmd. Ef við ætlum að fara með hálfum huga inn í þessa leiki þá getur það endað mjög illa. Við þurfum algjörlega að halda haus og klára þetta mót almennilega.“

En hvernig var að vakna á sunnudagsmorguninn?

„Það var bara mjög gott. Að vinna þennan bikar gerði mikið fyrir marga innan félagsins. Maður fékk bara gott í hjartað eftir öll viðbrögðin í kjölfar úrslitaleiksins. Maður kannski áttaði sig ekki á því í sigurvímunni hvað þetta var stórt fyrir KA og það eru margir búnir að bíða lengi eftir þessum titli. Það var virkilega sætt að koma með bikarinn heim“ sagði Ásgeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert